mobile navigation trigger mobile search trigger
09.12.2021

Frá bæjarstjóra: Staða mála vegna COVID-19 smita 9. desember

Eins og fram kom í tilkynningum aðgerðarstjórnar almanannvarna á Austurlandi í dag, og síðustu daga, hefur COVID -19 smitum fjölgað mikið í Fjarðabyggð undanfarið. Dreifing smitanna virðist vera sérstaklega mikil á Eskifirði og Reyðarfirði nú og tengist inn í skólastofnanir þar. Í ljósi þessarar miklu óvissu sem uppi er í kjölfar þessarar fjölgunar smita hafa fræðsluyfirvöld í Fjarðabyggð í samráði við aðgerðastjórn og HSA ákveðið að grípa þurfi til áframhaldandi lokana í nokkrum skólastofnunum í Fjarðabyggð.

Frá bæjarstjóra: Staða mála vegna COVID-19 smita 9. desember

Leikskólinn Lyngholt: Smitum hefur fjölgað nokkuð sem tengjast Lyngholti og stendur smitrakning yfir vegna þess. Leikskólanum var því lokað í dag og verður áfram á morgun föstudaginn 10. desember.

Eskifjarðarskóli: Smitum hefur fjölgað sem tengjast Eskifjarðarskóla og stendur smitrakning yfir vegna þess. Eskifjarðarskóli verður því áfram lokaður á morgun, föstudaginn 10. desember

Grunnskóli Reyðarfjarðar: Ljóst er að smitum meðal nemenda í grunnskóla Reyðarfjarðar hefur fjölgað. Allir nemendur og starfsmenn skólans voru hvattir til að fara í sýnatöku í dag og ættu niðurstöður að liggja fyrir seint í kvöld eða á morgun. Vinna vegna smitrakningar stendur nú yfir og er viðbúið að fleiri nemendur og starfsfólk lendi í sóttkví. Ekkert skólahald var því í Grunnskóla Reyðarfjarðar eftir kl.12:00  í dag og skólinn verður áfram lokaður á morgun föstudaginn 10. desember.

Við klárum þetta saman!

Við gerum okkur fulla grein fyrir að þarna er um afar íþyngjandi aðgerðar að ræða fyrir samfélagið allt. En í samráði við HSA og almannavarnir og að mati okkar eru þær taldar nauðsynlegar í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er. Er það von okkar að þessar aðgerðir, líkt og áður, muni duga til að ná tökum á þessu sem fyrst svo hægt verði að koma skólastarfi aftur í samt horf eftir helgina sem og samfélaginu okkar. Með það fyrir augum teljum við að rétt sé að grípa til þessar umfangsmiklu aðgerða nú til að ná þessari bylgju niður hratt og örugglega. Til þess að það verði mögulegt treystum við á góða samvinnu við alla íbúa Fjarðabyggðar, nú sem áður, því við erum öll í þessu saman og við leysum þetta með samvinnuna að leiðarljósi.

Að lokum langar mig til að hvetja alla sem ekki hafa nú þegar farið í sýnatöku að gera það.  Auðvitað alla þá sem hafa einkenni eða telja sig hafa verið í tengslum við einstaklinga sem smitast hafa, en einnig aðra sem ekki hafa einkenni, því einkennlausir geta í sumum tilfellum borið veiruna. Þannig tekst okkur vonandi að kortleggja sem best stöðu mála og bregðast við.  Á morgun, föstudaginn 10. desember verður opið í sýnatöku á Reyðarfirði frá kl. 09:00 – 10:30 og á Egilsstöðum frá kl. 12:00 – 13:30. Rétt er að árétta að þeir sem mæta einkennalausir í sýnatöku geta að henni lokini mætt til vinnu eða sinnt öðrum verkum, sé perónulegra sóttvarna gætt.

Við klárum þetta saman og gerum það sem fyrst.

Mínar bestu kveðjur til ykkar allra.

Jón Björn Hákonarson

Frétta og viðburðayfirlit