mobile navigation trigger mobile search trigger
11.09.2021

Friðlýsing Gerpissvæðisins

Á laugardaginn var ritað undir friðslýsingu Gerpissvæðisins. Athöfnin fór fram við Dys á leið til Viðfjarðar í afar fallegu veðri, og skartaði Gerpssvæðið sínu fegursta á þessum fallega haustdegi.

Friðlýsing Gerpissvæðisins

Það var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sem undirritaði friðlýsinguna í dag. „Þetta er stór stund í sögu náttúruverndar á Íslandi“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Gerpissvæðið er stórbrotið svæði, með fugla- og plöntulífi, minjum og merku landslagi sem mikilvægt er að varðveita. Ég óska Austfirðingum og Íslendingum öllum til hamingju með þessa friðlýsingu, en með henni höfum við tekið ákvörðun um að vernda þetta svæði um ókomna tíð.“

„Það er ánægjulegt að þessi vinna sem farið var í við friðlýsingu Gerpissvæðisins sé nú lokið með þessum áfanga. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur verið sammála um þá nálgun sem farið var í þar sem þeir landeigendur sem vildu fara með sínar jarðir í friðlýsingu gætu það og þeir sem utan hennar vildu standa gætu slíkt. Þannig hefur málið verið unnið í góðri samvinnu landeiganda, Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins sem er mikilvægt við mál eins og þetta. Þá opnar friðlýsingin ýmsa möguleika fyrir þessa einstöku náttúruperlu okkar til framtíðar ásamt því að hefðbundin nýting eins og veiði og beit verður óbreytt“ Sagði Jón Björn Hákonarson bæjarstjór Fjarðabyggðar að lokinni undirskriftinni í dag.

Gerpissvæðið er á milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar og hefur hátt verndargildi sem byggir á mikilvægi jarðminja, landslags, menningarsögu og útivistargildi. Innan svæðisins eru einnig stór svæði sem bera einkenni víðerna auk þess sem þar er að finna búsvæði sjaldgæfra plöntutegunda og fugla.

Elstu jarðlög á Austurlandi, um 14 milljón ára gömul, finnast á Gerpissvæðinu og eru þau tengd Barðsneseldstöðinni. Þar eru m.a. litrík líparíthraun sem eru á náttúruminjaskrá, og þykkt gjóskulag með plöntusteingervingum. Gerpissvæðið allt er á náttúruminjaskrá.

Gerpissvæðið var tilnefnt á náttúruverndaráætlun 2009-2013 með það að markmiði að vernda búsvæði nokkurra sjaldgæfra æðplöntutegunda og má þar nefna stinnasef, skógelftingu og lyngbúa sem eru á válista Náttúrufræðistofnunar.

Viðstaddir undirskriftina voru auk ráðherra og sveitarstjóra, fulltrúar bæjarstjórnar  og starfsmenn Fjarðabyggðar, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og fulltrúum landeiganda.

Frétta og viðburðayfirlit