mobile navigation trigger mobile search trigger
01.11.2018

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2019

Fimmtudaginn 1. nóvember 2018 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022. Áætlað er að seinni umræða fari fram fimmtudaginn 15. nóvember.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2019

Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag þann 10. júní á þessu ári undir nafni og kennitölu Fjarðabyggðar.  Heildarumsvif Breiðdalshrepps námu um 3% af heildarumsvifum Fjarðabyggðar fyrir sameiningu.  Útgönguspá ársins 2018 er miðuð við rekstur beggja sveitarfélaganna allt árið 2018.

Áætlað er að handbært fé frá rekstri verði um 1.231 millj. kr. til að standa straum af reglubundnum afborgunum lána upp á 563 millj. kr. og fjárfestingum fyrir 945 millj.kr. Á árinu 2019 er gert ráð fyrir lántöku að upphæð 200 millj. kr til að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu innviða s.s. byggingu leikskóla, lagfæringu veitna og hafnarmannvirkja.

Eins og verið hefur undanfarin ár leggur fjárhagsáætlunin áframhaldandi áherslu á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Þrátt fyrir að hækkun verði á flestum gjaldskrám, í samræmi við verðlagsþróun, munu fæðisgjaldskrá grunnskóla og gjaldskrá leikskóla og tónlistarskóla, standast samanburð við önnur sveitarfélög, sbr. systkinaafslátt í leikskólum sem og milli frístundaheimila og leikskóla. Systkinaafsláttur leikskólagjalda er óbreyttur og er, ásamt tónlistarskólagjöldum, með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Þá hafa þegar verið stigin fyrstu skref í þá átt að skólamáltíðir í Fjarðabyggð verði gjaldfrjálsar. Þá er gert ráð fyrir auknu fjármagni til að halda áfram vinnu við snjalltækjavæðingu skólanna í Fjarðabyggð.

Þá er rík áhersla lögð á félagsmál og um 40 millj. kr. er varið aukalega í þann málaflokk, umfram það sem gert var á árinu 2018. Verður þeim fjármunum varið í starf verkefnastjóra búsetu og virkni aldraðra, auk þess sem fjármagn verður aukið til barnaverndar og málefna fatlaðra.

Á undanförnum árum hefur aukinn metnaður og áþreifanlegur árangur náðst í fegrun bæjarkjarnanna. Gert er ráð fyrir að verkefnum við hreinsun og fegrun bæjarkjarnanna verði áframhaldið á árinu 2019. Sorpflokkun og endurvinnsla skipar sífellt stærri sess í rekstri sveitarfélagsins og hefur aukin flokkun úrgangs og endurvinnsla, gefið góða raun á árinu 2018. Á næstu árum verður áfram lögð áhersla á þennan málaflokk, enda mikilvægt að hugað sé vel að umhverfismálum.

Framkvæmdir verða töluverðar á árinu 2019 líkt og undanfarin ár. Unnið verður áfram að ofanflóðavörnum í Neskaupstað, auk endurbóta og stækkunar á höfnum Fjarðabyggðar.  Þá verður hafist handa við byggingu viðbyggingar leikskólans Lyngholts á Reyðarfirði, ásamt áframhaldandi uppbyggingu gatna í sveitarfélaginu. Auk þess verður unnið að endurbótum á vatnsveitukerfum sveitarfélagsins, en þar er orðin þörf á endurbótum.  Heildarfjármagn til framkvæmda á árinu 2018 er áætlað 732 millj. kr. samkvæmt útgönguspá.  Fyrir liggur einnig að mikil þörf er á framkvæmdum og uppbyggingu innviða í Fjarðabyggð og tekur þessi tillaga að fjárhagsáætlun mið af því með árlegum fjárfestingum á árunum 2020 – 2022 fyrir um 650 – 760 millj. kr. á ári.  

Eins og áður segir verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins á næstu árum og áfram verður hagræðingartækifæra leitað. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram, er unnin með hliðsjón af fjármálareglum og fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga skv. Sveitarstjórnarlögum. 

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.

Fjárhagsáætlun 2019 - 2022 - Fyrri umræða 1.11.2018.pdf

Starfsáætlun Fjarðabyggðar 2019 - Fyrri umræð 1.11.2018.pdf

Frétta og viðburðayfirlit