mobile navigation trigger mobile search trigger
02.05.2022

Glímukóngur og glímudrottning 2022 eru úr Fjarðabyggð

111. Íslandsglíman fór fram á Reyðarfirði á laugardag. Sigurvegarar í ár komu bæði úr Fjarðabyggð, en Kristín Embla Guðjónsdóttir tryggði sér Freyjumenið og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson sigraði keppnina um Grettisbeltið. Kristín Embla og Ásmundur keppa bæði undir merkju UÍA og æfa með UMF. Val á Reyðarfirði.

Glímukóngur og glímudrottning 2022 eru úr Fjarðabyggð
Glímudrottning og glímukóngur Íslands, Kristín Embla Guðjónsdóttir og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson fyrir miðju, ásamt þeim Þóroddi Helgasyni og Guðjóni Magnússyni sem veittu verðlaun á mótinu.

Í kvennaflokki mættu sex keppendur til leiks. Glímurnar voru allar glæsilegar og keppnin hörð. En það var að lokum Kristín Embla Guðjónsdóttir, frá Reyðarfirði, sem tryggði sér sigur með því að fella andstæðing sinn í lokaglímu keppninar. Þetta er í annað sinn sem Kristín hlýtur Freyjumenið, og sæmdartitilinn glímudrottning Íslands, en hún sigraði keppnina einnig árið 2018.

Í karlaflokki voru 8 keppendur skráðir til leiks. Líkt og í kvennaflokknum var hart tekist á og margar spennandi glímur. Spennan hélst allt til loka og úrslit lágu ekki fyrir fyrr en eftir æsispennandi loka glímu Reyðfirðingsins Ásmundar Hálfdáns Ásmundssonar og Einars Eyþórssonar úr Mývetningi. Það fór svo að lokum að Ásmundur feldi Einar og tryggði sér þar með Grettisbeltið, og titilinn glímukóngur Íslands. Þetta var í sjötta skiptið sem Ásmundur sigrar þessa keppnina um Grettisbeltið. Reyðfirðingar áttu fjóra aðra keppendur í karlaflokknum. Hákon Gunnarsson náði glæsilegum árangri í sinni fyrstu Íslandsglímu og endaði í þriðja sæti. 

Fjarðabyggð sendir þeim Kristínu og Ásmundi hamingjuóskir með þennan glæsilega árangur.

Frétta og viðburðayfirlit