mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2023

Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar

Fimmudaginn 30. nóvember s.l. heimsótti Jóna Árný, bæjarstjóri stofnanir Fjarðabyggðar á Reyðarfirði ásamt þeim Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu og Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa.  

Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri, Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri, Jóna Árný, bæjarstjóri og Hildur Magnúsdóttir deildarstjóri sérkennslu

Heimsóknin byrjaði í grunnskólanum á Reyðarfirði, og tók þar á móti bæjarstjóra, Ásta Ásgeirsdóttir, skólastjóri, Guðlaug Árnadóttir, aðstoðarskólastjóri og Hildur Magnúsdóttir deildarstjóri sérkennslu. Byrjað var á að setjast niður með stjórnendum og fara yfir starfsemi skólans, stefnu hans og helstu áherslur í skólastarfi.  

Að loknu góðu spjalli var gengið um skólann og kíkt inn í kennslustundir hjá bæði eldri og yngri bekkjum og spjallað við nemendur. Nemendur í öðrum bekk voru að æfa sig fyrir samsöng sem fór fram daginn eftir. Þar var markmiðið að slá Íslandsmet í samsöng með því að syngja lagið ,,Það vantar spýtur og það vantar sög“, eftir Ólaf Hauk Símonarson. Fékk bæjarstjóri að hlusta kröftugan flutning nemenda á laginu og lofaði að skila góðum kveðjum til höfundarins sem hún þekkir vel. 

Bæjarstjóri náði að setjast niður með starfsfólki í stutta stund í frímínútunum eða þar til bjallan glumdi. Eftir spjall við starfsfólk skólans var komið við í bókasafninu, en bókasafnið er eitt samsteypusafna í Fjarðabyggð, og gegnir bæði hlutverki skólabókasafns og almenningsbókasafni. Guðrún Rúnarsdóttir, forstöðumaður, sýndi bæjarstjóra aðstöðuna og sagði frá starfsemi þess. Á hverjum fimmtudegi er svokallaður fimmtudagslestur, en þá er í boði samverustund við lestur og ýmislegt gert, eins og að lesa, teikna og spila spil.  

Að því búnu var kíkt í kennslustund hjá eldri bekkjum en þar var verið að vinna að myndbands verkefni í íslensku. Þá voru 7. og  9. bekkur að læra félagsvist og um kvöldið var foreldrafélagið með föndurstund, þar sem meðal annars var skorið út laufabrauð og steiktar kleinur. 

Bæjarstjóri fékk kynningu á nýtingu skynjunarherbergis sem er rými í skólanum sem útbúið var af starfsfólki skólans og mest nýtt fyrir börn sem þurfa að fá tíma í skóladeginum frá öðru áreiti. Rýmið er nýtt í 30 mínútur í senn og má segja að stundataflan sé fullbókuð enda mikill stuðningur af notkun þess fyrir þá nemendur sem þurfa að fá tíma þar sem þau geta valið og stýrt áreitinu til að líða betur í skólanum.  

Eftir heimsóknina í grunnskólann var haldið yfir götuna og leikskólinn Lyngholt heimsóttur, þar tók á móti okkur Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri. Settumst við niður með henni og farið var yfir starfsemina. Leikskólinn er sex deilda leikskóli og kennir í anda Uppbyggingarstefnunnar og með ART. ,,Allir geta eitthvað, enginn getur allt" eru einkunnarorð skólans og leiðarljós þeirra í öllu starfi. Því fær hver og einn notið sinna styrkleika því þannig byggjum við upp sterka sjálfsmynd. Efni sem nýtt er við kennslu er að hluta búið til af starfsfólki, og kallast ,,Veggurinn". Veggurinn er hugsaður sem verkefnabanki fyrir öll sem starfa og stunda nám í Lyngholti.  

Að lokinni heimsókn í Lyngholt var haldið yfir í íþróttamiðstöðina, en þar tók á móti okkur Paulius Naucius forstöðumaður og Magnús Árni Gunnarsson, deildarstjóri íþróttamála og íþróttamannvirkja. Íþróttamiðstöðin er alhliða íþróttarhús í fullri stærð. En það var tekið í notkun 12. febrúar á þessu ári. Íþróttahúsið er um 1500 fermetrar að stærð ásamt um 200 fermetra tengibyggingu við eldra íþróttahús. Þar fer fram fjölbreytt starfsemi, eins og kennsla frá grunnskólum, íþróttastarfsemi íþróttafélaga sem og íbúum stendur til boða að leigja tíma undir sína íþróttaiðkun. Þarna geta farið fram allar helstu inni íþróttir eins og blak, körfubolti, handbolti, badminton og tennis. Einnig er þar klifurveggur sem íbúar geta nýtt sér. Unnið er nú að uppsetningu á lyklalausu aðgengi fyrir korthafa að líkamsræktinni, sem mun auka aðgengi að líkamsrækt til muna. Eftir að hafa skoðað íþróttahúsið var haldið yfir í Fjarðabyggðarhöllina, og aðstæður þar skoðaðar. Fjarðabyggðarhöllin er eini yfirbyggði knattspyrnuvöllurinn á austurlandi og þar fara fram allir leikir og æfingar FHL og KFK ásamt yngri flokkum í knattspyrnu. 

Síðustu vikur hefur Jóna Árný sem tók við sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar í vor heimsótt byggðakjarnana og stofnanir sveitarfélagsins ásamt ýmsum fyrirtækjum sem starfa í samfélaginu okkar. Í vikunni var Eskifjörður heimsóttur og verður greint frá því fljótlega. Í janúar er svo stefnt á að bæjarstjóri verði með viðtalstíma í tengslum við íbúafundina sem haldnir verða, verður það auglýst síðar. Áhugasömum er bent á að vera í sambandi við upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar á netfangið haraldur.haraldsson@fjardabyggd.is  

Fleiri myndir:
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný, Hjördís Seljan umsjónarkennari og bæjarfulltrúi ásamt Ástu Ásgeirsdóttur, skólastjóra við ljósmyndina sem forseti íslands færði Fjarðabyggð að gjöf
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný, Thelma Rún og Guðrún Rúnarsdóttir
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný og Guðrún Rúnarsdóttir, forstöðumaður bókasafnsins á Reyðarfirði
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný ásamt nemendum grunnskólans á Reyðarfirði
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný ásamt nemendum grunnskólans á Reyðarfirði
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Paulius Naucius forstöðumaður, Jóna Árný og Magnús Árni Gunnarsson, deildarstjóri íþróttamála og íþróttamannvirkja
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný ásamt börnum á leikskólanum Lyngholt
Heimsókn bæjarstjóra til Reyðarfjarðar
Jóna Árný og Lísa Lotta, leikskólastjóri.

Frétta og viðburðayfirlit