mobile navigation trigger mobile search trigger
08.01.2024

Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar útnefnd

Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar var útnefnd á laugardaginn og var það Kristín Embla Guðjónsdóttir, glímukona í Val sem hlaut þann titil. Í umsögn íþrótta- og tómstundaráðnefndar um Kristínu segir:

Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar útnefnd
Kristín Embla Guðjósndóttir, íþróttamanneskja Fjarðabyggðar 2023

Kristín Embla er gull af manni og með samviskusemi, keppnisskapi og dugnaði nær hún árangri. Með þessum eiginleikum náði hún að landa Freymeninu 2023 í glímu í þriðja sinn á árinu. Utan vallar er hún góð fyrirmynd og hvatning til ungra kvenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Einnig sem landsliðskona er hún einstaklega góður fulltrúi fyrir land og þjóð.

Kristín Embla gat því miður ekki verið viðstödd þar sem hún var að taka við verðlaunum sem glímukona ársins. Var það systir hennar Elín Eik Guðjónsdóttir sem tók við verðlunum systur sinnar.

Fjórir einstaklingar voru tilnefnd sem íþróttamanneskja Fjarðabyggðar og voru þau eftirfarandi:

 • Arek Jan Grzelak – Leiknir
 • Sævar Emil Ragnarson – Austri
 • Geir Sigurbjörn Ómarsson – Þróttur
 • Kristín Embla Guðjónsdóttir – Valur

Íþrótta- og tómstundanefnd fékk tilnefningar frá íþróttafélögum Fjarðarbyggðar og valið var erfitt því margar góðar tilnefningar bárust. Þegar verið er að velja íþróttamanneskju Fjarðabyggðar, þá eru kallaðir til bæði aðal og varamenn íþrótta- og tómstundanefndar, þannig að 10 manns koma að kjörinu.

Einnig voru veitt Hvatningarverðlaun Fjarðabyggðar en þau eru veitt til að hvetja ungmenni á aldrinum 13- 15 ára til dáða í íþróttastarfi. Verðlaunin eru veitt þeim einstakling sem hefur sýnt mikinn áhuga á íþróttinni og verið með góða ástundun, hefur sýnt prúðmennsku innan og utan vallar auk þess að vera að vera frábær félagi og fyrirmynd annarra unglinga.

Tilnefningar fyrir hvatningarverðlaun Fjarðabyggðar voru eftirfarandi:

 • Rakel Lilja Sigurðardóttir – Valur
 • Ármey Mirra Ólafsdóttir – Leiknir
 • Nanna María Ragnarsdóttir – Austri
 • Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir – Þróttur
 • Daniel Michal Grzegorzsson – Valur
 • Nenni Þór Guðmundsson – Leiknir
 • Davíð Orri Valgeirsson – Austri
 • Heiðmar Óli Pálmason – Þróttur

Þau sem fengu hvatningarverðlaun Fjarðabyggðar að þessu sinni eru: 

Daniel Michal Grzegorzsson

Í umsögn Daníels segir: 

Daniel Michal er mjög góð fyrirmynd og hefur stundað sína íþrótt frá unga aldri við góðan orðstír.  Hann hefur einnig aðstoð við að þjálfa yngri iðkendur.  Hann tók þátt í landsleikjumí haust með U15 ára landsliði í knattspyrnu og var lykilmaður í framlínu liðsins. Hann ber með sér mikla yfirvegunog samviskusamur. Nýlegt viðtal við hann sýnir hversu agaður og einbeittur hann er og hversu vel hann hugsar um bæði líkama og sál til að ná langt í sinni íþrótt.

Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir

Í umsögn Sóldísar segir:

Sóldís er einstaklega áhugasöm og hefur æft frá 6 ára aldri. Hennar markmið var að komast sem fyrst að æfa með meistaraflokki og að komast í landslið. Þau markmið náðust bæði í haust. Sóldís er einbeitt, ákveðin og traust. Hún er góður félagi bæði innan og utan vallar. Sóldís er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og sýnir að leggi maður hart að sér getur maður náð markmiðum sínum og kemur vel fyrir og er kurteis og til mikillar fyrirmyndar og erum við hjá Þrótti stolt af þeirri manneskju og íþróttakonu sem Sóldís er. Sóldís er alltaf boðin og búin að taka þátt í starfi blakdeildarinnar með einum og öðrum hætti og er alltaf hægt að leita til hennar þegar leitað er eftir sjálfboðaliðum. 

Fleiri myndir:
Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar útnefnd
Daniel Michal Grzegorzsson tekur við verðlunum frá Arndísi Báru Pétursdóttur formanni íþrótta- og tómstundarnefndar
Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar útnefnd
Arndís Bára Pétursdóttur formaður íþrótta og tómstundarnefndar afhendir Elínu Eik Guðjónsdóttir verðlaunin, en hún tók við verðlaunum fyrir hönd systur sinnar
Íþróttamanneskja Fjarðabyggðar útnefnd

Frétta og viðburðayfirlit