mobile navigation trigger mobile search trigger
23.12.2021

Jólakveðja frá bæjarstjóra

Jólin eru framundan, hátíðin sem mörg okkar bíða eftir með eftirvæntingu. Jólin eru góður tími sem fylgir sérstakt andrúmsloft og þau skapa oft góðar minningar og það er engin tilviljun. Það þarf jafnvel bara lítið jólalag, hangikjötslykt, eða ákveðið jólaskraut til senda okkur í huganum aftur í tímann, til æskujólanna. Við leggjum okkur síðan öll fram á fullorðinsárum við að endurskapa þessi hughrif æskujólanna fyrir okkar afkomendur. 

Jólakveðja frá bæjarstjóra

En nú, eins og í fyrra, verður jólahaldið með öðrum hætti. Veiran skæða setur nú aftur strik í reikninginn þegar kemur að hefðbundnu jólahaldi. Við búum nú við miklar takmarkanir sem gera það að verkum að væntanlega geta margir ekki haldið þá hátíð sem þeir sáu fyrir sér eða voru búnir að skipuleggja. Síðstu tæplega tvö ár, hafa þó kennt okkur að takast á við slíkt af æðruleysi og finna lausnir sem henta. Við skulum þess vegna reyna eftir fremsta megni að njóta þess tíma sem framundan er og njóta samvista með okkar nánustu fjölskyldu, og nýta okkur aðrar lausnir til samskipta við aðra sem við hefðum svo gjarnan hafa með okkur. Nýtum það tækifæri sem jólin gefa okkur til þess að treysta böndin sem skipta okkur svo miklu máli. Verum með þeim sem skipta okkur mestu og gleðjumst saman – hvort sem er í raunheimum eða með rafrænum hætti.

Framundan er nýtt ár, árið 2022, með öllum sínum áskorunum og verkefnum. Framtíð sveitarfélagsins okkar er björt og framundan eru mörg verkefni stór og smá sem starfsmenn sveitarfélagsins munu takast á við og leysa. Þrátt fyrir að síðustu tvö ár hafa verið heldur óvenjuleg vegna veirunnar þá hefur starfsfólk sveitarfélagsins tekist á við störf sín af mikilli þrautseigju og aðlögunarhæfni starfsmanna að síbreytilegum aðstæðum hefur verið aðdáunarverð. Tekist hefur að sjá til þess að röskun á þjónustu sveitarfélagsins hafi orðið eins lítil og mögulegt er og hefur það verið sveitarfélaginu okkar ómetanlegt .

Fyrir hönd bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og starfsmanna sveitarfélagsins sendi ég íbúum Fjarðabyggðar og landsmönnum öllum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Frétta og viðburðayfirlit