mobile navigation trigger mobile search trigger
03.07.2017

Landvörður tekinn til starfa í Fjarðabyggð

Lára Björnsdóttir hefur verið ráðin sem landvörður á Austfjörðum. Meðal verkefna er vernd Helgustaðanámu.

Landvörður tekinn til starfa í Fjarðabyggð
René Biasone, sérfræðingur og svæðisfulltrúi Austurlands og Lára Björnsdóttir, landvörður.

Það var nú á vordögum, í lok maímánaðar, þegar flestir voru búnir að næla sér í sumar- og/eða framtíðarstörf, að umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti Umhverfisstofnun viðbótarfjármagni til landvörslu. Fjármagnið til landvörslu hér á Austfjörðum samsvaraði 25 vikna tímabili. Þar sem landvarsla er lögverndað starf voru góð ráð dýr því á þessum tíma var að bresta á brýn nauðsyn þess að fá lanvörð með tilskilin leyfi til starfa. Eftir athugun hjá Landvarðafélagi Íslands var Lára Björnsdóttir, búsett á Reyðarfirði, fengin til starfans. Lára er nýútskrifuð með BA í ferðamálafræði frá Hólum í Hjaltadal og landvörslu í farteskinu. Landvarðarstaðan er tímabundin ráðning í 25 vikur fyrir árið 2017.

Lára er starfsmaður Umhverfisstofnunar (UST) en verður með starfstöð á vegum Fjarðabyggðar hjá Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað. Megin áhersla landvörslunnar er eftirlit með Helgustaðanámu sem hefur um langt árabil verið á skrá sem náttúrusvæði á válista vegna mikils brottnáms silfurbergs úr námunni. Auk þess að gæta námunnar er henni ætlað að hafa umsjón með öðrum friðlýstum svæðum á Austfjörðum sem teygja sig frá Álfaborgum í Borgarfirði eystri suður að Óslandi í Hornafirði.

Forsaga þess að landvörður hefur tekið til starfa hér á Austfjörðum þar með talið hér í Fjarðabyggð eru ítrekaðar beiðnir frá sveitarfélaginu um mikilvægi þess að landvörður yrði fenginn til eftirlits með náttúruperlum okkar Austfirðinga með megin áherslu á Helgustaðanámu. Frá því í fyrrahaust hefur sveitarfélagið Fjarðabyggð þrýst á þar til gerð yfirvöld, UST og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, að leggja til fjármagn í landvörslu á náttúruperlum í Fjarðabyggð. Samhliða þessum ábendingum vann sveitarfélagið ásamt UST að stjórnunar- og verndunaráætlunum fyrir Helgustaðanámu og Hólmanes og var þar tekið skýrt fram að landvörslu á svæðinu væri þörf.

Vinna landvarða er margbreytileg, allt frá því að fræða fólk um náttúru Íslands í að tilkynna lögbrot s.s. um utanvegaakstur. Á næstu mánuðum megum við Austfirðingar búast við að sjá sægráan Skóda Fabia, merktan landvörður / Umhverfisstofnun, bruna um svæðin okkar. Innanborðs er landvörðurinn okkar hún Lára Björnsdóttir sem fengið hefur, af mörgum talið, bestu skrifstofu sem hægt er að hugsa sér eða náttúruperlur Austfjarða.

Við í Fjarðabyggð óskum nýráðnum landverði til hamingju með starfið og á sama tíma vonum við að áframhald verði á þessari þörfu viðbót sem landvarslan er til viðhalds og verndunar náttúruperlnanna okkar Austfirðinga.

Anna Berg Samúelsdóttir

Umhverfisstjóri Fjarðabyggðar

Fleiri myndir:
Landvörður tekinn til starfa í Fjarðabyggð
Vernd Helgustaðanámu er eitt af forgangsverkefnunum.
Landvörður tekinn til starfa í Fjarðabyggð
Lára í Páskahelli.

Frétta og viðburðayfirlit