mobile navigation trigger mobile search trigger
02.08.2016

Neistaflug í Neskaupstað

Neistaflug var haldið í Neskaupstað í 24 skiptið um verslunarmannahelgina. Þátttaka á hátíðinni var góð en bæði heimamenn, brottfluttir og aðrir gestir Fjarðabyggðar fjölmenntu. Dagskráin var blanda af föstum liðum sem og nýjum dagskrárliðum.

Neistaflug í Neskaupstað
Mikil þátttaka var í kassabílarallinu

Dagskráin hófst á fimmtudagskvöldið með tónleikum, bíó og sundlaugardiskó. Skrúðganga var að venju á föstudagskvöldið en að henni lokinni var grillveisla fyrir alla í miðbænum en grillveislan leysti af hólmi hverfagrillin sem verið hafa undanfarin ár. Buff lokaði síðan hátíðinni á sunnudagskvöldinu með dansleik að lokinni kvöldvöku, sem var að þessu sinni haldin á gervigrasvelli Norðfjarðar. 

Skemmtiatriði helgarinnar voru afar fjölbreytt en þar má meðal annars nefna Pollapönk, Gunna og Felix, Leikhópinn Lottu og Íþróttaálfinn ásamt Sollu Stirðu. Í ár var einnig í fyrsta skipti kassabílarall en alls voru 80 þátttakendur. Neistaflugsnefndin smíðaði fimm kassabíla og komu einhverjir með sína eigin. 

Gunni og Felix sem hafa verið fastagestir á hátíðinni í 17 ár tilkynntu að þetta væri síðasta árið sem þeir kæmu fram en þeir þökkuðu kærlega fyrir liðnar stundur. 

Það rættist vel úr veðurspánni en spáð var skúrum og kulda en þegar viðraði sem best um helgina, var sól og 15 stiga hiti.  

Barðsneshlaupið fór fram í tuttugasta skiptið. Lengri leiðin er 24 kílómetrar en sý styttri 13 km. Bergey Stefánsdóttir bar sigur úr bítum í 24 km hlaupinu á tímanum 2:45:30 og Birkir Einar Gunnlaugsson vann 13 km hlaupið á tímanum 54:37. 

Lögreglan á Austurlandi þakkaði Norðfirðingum og öðrum gestum fyrir frábæra helgi á fésbókarsíðu sinni. Segir þar að gestir Neistaflugs hafi nánast undantekningalaust verið til fyrirmyndar og gleðin við völd. 

 

Fleiri myndir:
Neistaflug í Neskaupstað
Gunni og Felix kveðja eftir 17 ár
Neistaflug í Neskaupstað
Hjálpast að við að grilla handa gestum
Neistaflug í Neskaupstað
Skrúðganga rauða hverfisins var glæsileg í ár
Neistaflug í Neskaupstað
Brunaslöngubolti, fastur liður eins og venjulega

Frétta og viðburðayfirlit