mobile navigation trigger mobile search trigger
09.02.2017

Niðurstöður nýrrar starfsánægjukönnunar kynntar

Hollusta starfsfólks hjá Fjarðabyggð hefur aukist frá árinu 2013, samkvæmt niðurstöðum nýrrar starfsánægjukönnunar sem kynntar voru í bæjarráði á mánudag. Meðalstarfsmaðurinn hjá Fjarðabyggð hlakkar til að fara í vinnuna og telur góða þjónustu forgangsatriði á sínum vinnustað.

Niðurstöður nýrrar starfsánægjukönnunar kynntar

Starfsánægjukönnunin fór fram rafrænt dagana 3. til 25. nóvember sl. og fengu 382 starfsmenn Fjarðabyggðar spurningalista sendan með tölvupósti. Alls svöruðu 242 eða 63% aðspurðra, sem er nokkuð hærra svarhlutfall en í síðustu könnun, sem var gerð haustið 2013 með þátttöku 55% eða ríflega helmings starfsmanna.

Ef litið er til einstakra spurninga í könnuninni, þá hlakkar meðalstarfsmaðurinn hjá Fjarðabyggð til að fara í vinnuna á morgnana. Hann er stoltur þegar hann segir frá því hvar hann starfar og er reiðubúinn að mæla með því við aðra að sækja um starf á vinnustað sínum. Meðalstarfsmaðurinn er einnig ánægður með næsta yfirmann og telur sig hafa svigrúm til sjálfstæðrar ákvarðanatöku. Góð þjónusta er forgangsatriði á vinnustað, ímynd vinnustaðarins er almennt talin góð út á við og samstarfsandi, fagleg samskipti og faglegt samstarf innan vinnustaða er talið gott. Þá telur meðalstarfsmaðurinn sig eiga auðvelt með að samræma einkalíf og vinnu.

Starfsánægjukönnunin er gerð á grunni Íslensku starfsánægjuvísitölunnar. Sem mælitæki greinir vísitalan starfsánægju & hvatningu starfsfólks með tilliti til þess hvað tekst vel á vinnustað og hvað megi fara betur.

Meginniðurstöður eru þær að starfsánægja & hvatning lækkar lítillega á milli kannanna. Þeir þættir sem reyndust hafa áhrif á starfsánægju í sveitarfélaginu í heild eru starfsskilyrði, starfið, starfsþróun og samstarf. Aðrir þættir, eða ímynd, stjórnun sveitarfélagsins, næsti yfirmaður og laun & kjör hafa því ekki afgerandi áhrif á starfsánægju.

Í starfsánægjukönnuninni er hollusta við vinnustað og tryggð starfsfólks einnig mæld. Hollusta eykst lítillega á milli kannanna, en tryggð lækkar lítillega.

Starfsánægjukönnunin er hluti af nýrri mannauðsstefnu Fjarðabyggðar og gegnir lykilhlutverki fyrir framkvæmd hennar og eftirfylgni. Niðurstöður eru greindar eftir einstökum vinnustöðum og munu stjórnendur á hverjum vinnustað vinna með niðurstöðurnar og fara í aðgerðir og úrbætur eftir því sem við á.

Að Íslensku ánægjuvísitölunni standa HRM rannsóknir og ráðgjöf og Zenter.

Fleiri myndir:
Niðurstöður nýrrar starfsánægjukönnunar kynntar
Myndin sýnir þrjá þætti könnunarinnar í samanburði við vísitöluna

Frétta og viðburðayfirlit