mobile navigation trigger mobile search trigger
28.05.2019

Ný sumarsýning Tryggvasafns - Líf með litum

Laugardaginn 1. júní opnar í Tryggvasafni í Safnahúsinu í Neskaupstað ný sumarsýning á verkum Tryggva Ólafssonar listamanns. Sýning ársins ber heitið Líf með litum og veitir góða innsýn í listamannsferil Tryggva.

Ný sumarsýning Tryggvasafns - Líf með litum

Á sýningunni eru 42 verk og er henni ætlað að gefa gott yfirlit um allan listamannsferil Tryggva Ólafssonar. Elsta myndin á sýningunni er frá árinu 1954, þegar listamaðurinn var 14 ára að aldri, en nýjustu myndirnar eru frá árinu 2017.

Tryggvasafn er eina listasafnið á Austurlandi og því ætti fólk ótvírætt að heimsækja það og njóta frumlegrar og litríkrar listar Tryggva Ólafssonar ásamt því að skoða Náttúrugripasafnið og Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar í Safnahúsinu. Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar  hóf starfsemi árið 2001 og frá árinu 2007 hefur það haft sýningaraðstöðu á neðstu hæð Safnahússins. Nú eru vel á fjórða hundrað verk eftir listamanninn í eigu safnsins og sífellt fjölgar þeim.

Tryggvi Ólafsson fæddist í Neskaupstað 1. júní 1940 og ólst þar upp til 16 ára aldurs. Ungur að árum fékk hann áhuga á myndlist og þegar hann var í sveit að Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá gafst honum tækifæri til að fylgjast með meistara Kjarval að störfum. Þá uppgötvaði hann fyrst að til væru menn sem lifðu af list sinni. Tryggvi hóf nám í Handíða- og myndlistaskólanum árið 1960 og sama ár hélt hann sína fyrstu myndlistarsýningu í Reykjavík. Síðan lá leiðin í Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn þar sem hann lauk námi árið 1967. Tryggvi bjó í Kaupmannahöfn í tæpa hálfa öld og starfaði þar við list sína. Stíll hans varð afar persónulegur með tímanum og gat listamaðurinn sér gott orð um víða veröld, en einkum er hann þekktur á Norðurlöndum. Verk eftir Tryggva er að finna á 17 listasöfnum á Norðurlöndum og eru myndir hans þar gjarnan í hávegum hafðar.

Tryggvi lést í byrjun þessa árs og er hans sárt saknað. Þrátt fyrir að hann ætti við erfið veikindi að stríða síðustu árin sinnti hann list sinni af sama einlæga áhuganum og fyrr. Nánast allt til loka komu frá honum ný myndverk og aldrei fór á milli mála hver var höfundur þeirra, stíllinn var svo sérstakur og afgerandi. Það er ekki síst vegna andláts Tryggva að efnt er til yfirlitssýningar á verkum hans og heiti sýningarinnar vísar til litagleðinnar sem einkennir þau.

Það verður enginn svikinn af því að skoða sýninguna Líf með litum og Austfirðingar ættu alls ekki að láta hana framhjá sér fara. Það er full ástæða til að njóta verka í eigu eina listasafnsins í landshlutanum.

Smári Geirsson

Frétta og viðburðayfirlit