mobile navigation trigger mobile search trigger
10.04.2020

Páskakveðja frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar sendir íbúum og starfsmönnum Fjarðabyggðar góðar kveðjur um gleðilega páska. Meðfylgjandi er örstutt páskakveðja frá bæjarstjórn.

Páskakveðja frá bæjarstjórn Fjarðabyggðar

Ágætu íbúar og starfsmenn Fjarðabyggðar.

Það eru skrýtnir tímar sem við lifum nú meðan veirufaraldurinn gengur yfir heiminn og snertir það okkur öll, hvar sem við búum eða hvað sem við gerum. Í slíkum aðstæðum reynir mikið á okkur öll. En við reynum að halda lífinu í sem mestum skorðum og samfélögunum okkar gangandi meðan þessi faraldur fer yfir. Þar er hvar mest álagið búið að vera á því fólki sem starfar í framlínunni við heilbrigði og öryggi íbúanna á þessum tímum. Þá hefur ekki síður verið mikið álag á starfsfólki skólanna, hjúkrunarheimilanna og félagsþjónustu í samfélaginu okkar, sem hefur kappkostað að láta þá starfsemi ganga eins vel og kostur er við þessar krefjandi aðstæður.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar vill senda öllu því fólki  bestu kveðjur og þakkir fyrir. Eins sendir bæjarsjórn öllum íbúum Fjarðabyggðar bestu þakkir  fyrir að takast á við þessar aðstæður af æðruleysi og samstöðu svo eftir er tekið.

Við þekkjum öll af sambýli okkar við náttúruna í gegnum tíðina að stundum reynir á þegar vá er fyrir dyrum og það er eins nú, þó váin sé af öðrum toga. Við þessar aðstæður stöndum við öll saman sem einn maður og tökumst á við verkefnin. Það er okkar mesti styrkur og þannig verður það líka nú.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Fjarðabyggðar sendi ég ykkur öllum okkar bestu páskakveðjur og vona að þið njótið hátíðanna þrátt fyrir þær takmarkanir, sem nauðsynlegar eru nú, á ferðalögum og samkomum. Hlúum að okkar nánustu og munum að það vorar fyrr en varir og það birtir yfir samfélaginu að nýju.

Með bestu kveðjum.

F.h. Bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar.

Frétta og viðburðayfirlit