mobile navigation trigger mobile search trigger
06.03.2020

Sameiginleg yfirlýsing fimm sveitarfélaga vegna ástands og umhald um loðnuveiðar.

Sveitarfélögin Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar, Hornafjörður, Vopnafjörður og Langanesbyggð hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna ástands og umhald um loðnuveiðar. 

Sameiginleg yfirlýsing fimm sveitarfélaga vegna ástands og umhald um loðnuveiðar.
Frá Norðfjarðarhöfn

Yfirlýsing sveitarfélaganna hljóðar svo:

Sveitarfélögin Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar, Hornafjörður, Vopnafjörður og Langanesbyggð lýsa yfir miklum vonbrigðum með að Sjávarútvegsráðherra, stjórnvöld og Hafrannsóknarstofnun skuli ekki hafa gefið út rannsóknarkvóta á loðnu nú þegar hryggning stofnsins hefst. Með því hefði gefist mikilvægt tækifæri til rannsókna á stofninum ásamt því að hægt hefði verið að verja hrognamarkaði á erlendri grund fyrir íslenskar útgerðir þetta árið.

Þá er ekki síður áhyggjuefni hversu mikið skortir upp á nýjar grunnrannsóknir á loðnustofninum fyrir Ísland og því verða stjórnvöld að bregðast við nú þegar og gera Hafrannsóknarstofnun það kleift fjárhagslega að ráðast í slíkar rannsóknir. Ekki síst var það mikið áfall að heyra að Hafrannsóknarstofnun hafi ekki fengið fjárframlag á dögunum til að stofnunin gæti vaktað loðnuna og hegðun hennar nú.

Þá geta áðurtalin sveitarfélög, sem byggja afkomu sína að stóru leiti á uppsjávarveiðum, ekki sætt sig við þau svör sem þau hafa fengið frá ráðherra í fjölmiðlum um að þau þurfi að taka á sig skellinn af loðnubresti ár eftir ár án nokkrar aðkomu eða umræðna við stjórnvöld um aðrar tímabundnar aðgerðir til að mæta slíkum áföllum. Þá er rétt að hafa í huga að áföll sem þessi hafa ekki bara áhrif á rekstur sveitarfélaganna heldur líka fyrirtækja í þeim sem og almennings og það á að vera samstarfsverkefni stjórnvalda og sveitastjórna að mæta slíku.

Nánari upplýsingar veitir Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar í s. 899 8255

Frétta og viðburðayfirlit