mobile navigation trigger mobile search trigger
21.03.2023

Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi

Í gær var haldin upphafsfundur verkefnis um áframhaldandi þróun á svæðisbundnu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi meðal lykilaðila á Austurlandi. Fundurinn var haldinn í húsnæði Austurbrúar á Reyðarfirði.

Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi

Fundurinn var boðaður að frumkvæði Margrétar Maríu Sigurðardóttur, lögreglustjóra á Austurlandi, og er hluti af uppbyggingu á landsvísu á svæðisbundnu samráði um ofbeldis- og afbrotavarnir. Reynslan hefur sýnt að þverfaglegt svæðisbundið samstarf gegn ofbeldi er líklegast til að varna því, tryggja nauðsynlega vernd og stuðning fyrir þolendur og aðstoð við gerendur til að láta af hegðun sinni. Verkefninu er ætlað að efla og styðja við frekari þróun á þverfaglegri samvinnu meðal lykilaðila á hverju landssvæði þ.m.t. félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, barnaverndaryfirvalda, heilbrigðisþjónustu, skóla, félagasamtaka og lögreglu. Lykilsamstarfsaðilar í verkefninu eru sveitarfélög og landshlutasamtök.

Ríkislögreglustjóri mun styðja við verkefnið en félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fól embættinu ábyrgð á aðgerð C.6 (stuðningur við svæðisbundið samráð) í samræmi við þingsályktun um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Á fundinum var skipaður vinnuhópur sem kemur til með að undirbúa vinnustofu sem haldin verður í haust til að móta formlegan samstarfsvettvang á milli þátttakanda og sameinast um áherslur vegna ofbeldis- og afbrotavarna á Austurlandi. Vinnuhópinn skipa ásamt lögreglustjóra á Austurlandi þær Júlía Sæmundsdóttir, félagsmálastjóri Múlaþings, Laufey Þórðardóttir, sviðstjóri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar og Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú.

Fleiri myndir:
Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi
Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi
Guðrún M. Óðinsdóttir frá embætti Ríkislögreglustjóra
Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi
F.v. Eygló Harðardóttir, Þórunn M. Óðinsdóttir (báðar frá embætti Ríkislögreglustjóra) og Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri á Austurlandi

Frétta og viðburðayfirlit