mobile navigation trigger mobile search trigger
18.12.2023

Samstarfsverkefni grunnskóla Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands

Á vordögum 2021 var ákveðið í samstarfi við grunnskólana í Fjarðabyggð að bjóða nemendum í 9. og 10. bekk upp á nám í verklegum greinum í Verkmenntaskóla Austurlands

Samstarfsverkefni grunnskóla Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands

Ástæðurnar voru margvíslegar, grunnskólarnir vildu gjarnan auka tækifæri nemenda til þess að kynnast fjölbreyttari verkgreinum og VA leit á verkefnið sem eins konar skólakynningu með það fyrir augum að fjölga nemendum í iðn- og starfsnámi. Einnig var það talinn einn af kostum verkefnisins að blanda nemendum úr Fjarðabyggð saman og ýta þannig undir samkennd milli þeirra.

Sótt var um styrk í Sprotasjóð og Alcoa foundation og fékkst upphæð til þess að fjármagna verkefnið að hluta. Verkefnið fór af stað á haustönn 2021 og var áætlað að hvor bekkur fyrir sig myndi heimsækja Verkmenntaskólann í átta skipti, fjórar kennslustundir í hvert skipti og þannig fá 32 stundir.

Nemendurnir gátu valið úr sex námsgreinum sem kenndar eru í VA, Fab Lab, húð og hár, trésmíði, rafmagni, málm- og véltækni og bifreiðum. Nemendur röðuðu greinunum í þá röð sem þau vildu helst og náðist að veita nemendum þær greinar sem þeir óskuðu helst eftir en hver nemandi gat lagt stund á tvær greinar.

Í lok annarinnar var verkefnið metið með því að leggja fyrir nemendur 10. bekkjar könnun. Þar kom fram að tæp 85% voru ánægð með verkefnið. Einnig töldu tæp 39% nemenda að verkefnið hefði aukið áhuga sinn á verk- og tækninámi. Nemendur töldu helstu kosti valsins vera að það hjálpaði nemendum við námsval í framtíðinni og kynnast nemendum frá öðrum stöðum. Á sama hátt var viðhorf forsjáraðila nemendanna kannað og var almenn ánægja með námsgreinarnar.

Sami háttur var hafður á haustönn 2022 en einni grein var bætt við frá árinu áður en það var myndbandsgerð. Skipulagið var það sama og árið áður og var framkvæmt mat í lokin, bæði hjá 9. og 10. bekk. Þar kom í ljós að 70% nemenda í 10. bekk voru ánægðir með verkefnið og 26% þeirra sögðu verkefnið hafa aukið áhuga sinn á verk- og tækninámi. Meðal 9. bekkinga var ánægjan tæp 76% og 63,4% þeirra töldu verkefnið hafa aukið áhuga sinn á verk- og tækninámi. Kostirnir voru áfram taldir þeir sömu, að hjálpa við námsval og kynnast krökkum á öðrum stöðum.

Á haustönn 2023 voru greinarnar stokkaðar upp og samanstóðu nú af Fab Lab, húð og hár, trésmíði, rafmagni, málmsmíði, véltækni og listakademíu. Var skipulagið að öðru leyti það sama nema nú voru nemendur allar fjórar kennslustundirnar í fjögur skipti í fyrri greininni áður en skipt var um grein seinni fjögur skiptin. Áður höfðu nemendur verið í tvær kennslustundir í hvorri grein í hvert skiptanna 8. Var þetta talið koma betur út og meira myndi vinnast í einu í verklegu greinunum.

Í lok dvalar 10. bekkinga var viðhorf þeirra metið og voru rúm 87% þeirra ánægð með verkefnið og töldu rúm 53% þeirra verkefnið hafa aukið áhuga sinn á verk- og tækninámi. Nemendur í 9. bekk kláruðu svo sitt val þann 14. desember og hefur ekki verið lagt mat á það.

Frá því að verkefnið hófst fyrir rúmum tveimur árum er ljóst að það hefur skilað sér í aukinni aðsókn í verklegt nám. Á haustönn 2021 þegar verkefnið hófst sóttu 4 nýnemar beint úr grunnskóla um nám í húsasmíði og enginn um nám í rafvirkjun. Á haustönn 2022 sóttu 9 nýnemar um nám í húsasmíði og 7 í rafvirkjun. Á haustönn 2023 sóttu 8 nýnemar um nám í húsasmíði og 6 í rafvirkjun. Aðsókn í vélstjórn og vélvirkjun hefur verið nokkuð stöðug síðustu annir og ekki hægt að sjá greinanlega aukningu þar eins og í hinum greinunum tveimur.

Fleiri myndir:
Samstarfsverkefni grunnskóla Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands
Samstarfsverkefni grunnskóla Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands
Samstarfsverkefni grunnskóla Fjarðabyggðar og Verkmenntaskóla Austurlands

Frétta og viðburðayfirlit