mobile navigation trigger mobile search trigger
24.02.2015

Síldarvinnslan er menntasproti ársins 2015

Síldarvinnslan í Neskaupstað var valin menntasproti ársins 2015. Hér má sjá Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóra, taka við þessari eftirsóttu viðurkenningu. Með honum á myndinni er Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar.

Síldarvinnslan er menntasproti ársins 2015
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri Iðunnar og Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SVN. Ljósmynd: Samtök atvinnulífsins.

Menntasproti ársins 2015 er Síldarvinnslan í Neskaupstað. Þessa eftirsóttu viðurkenningu hlaut Síldarvinnslan fyrir Sjávarútvegsskólann, sem fyrirtækið kom á fót árið 2013. Ástæðan er sú, að sögn Gunnþórs Ingvarssonar, framkæmdastjóra, að kynslóð ungmenna var að alast upp í Neskaupstað án þess að fá tækifæri til að kynnast sjávarútvegi af eigin raun.

Eftir að Sjávarútvegsskólanum hafði verið hrundið úr vör, bættust fleiri í hópinn og standa nú einnig Eskja og Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði að skólanum. Þá var gert samkomulag við Fjarðabyggð um samstarf við vinnuskólann og býðst þeim ungmennum sem lokið hafa 8. bekk grunnskólans að sækja vikunámskeið í Sjávarútvegsskólanum á launum. 

Á árinu 2013 gerði Fjarðabyggð sambærilegt samkomulag við Verkmenntaskóla Austurlands um verknámsviku og nær það til þeirra sem lokið hafa 9. bekk. Áhugaverð atvinnutengd námskeið bjóðast því bæði 8. og 9. bekkingum í vinnuskóla Fjarðabyggðar.

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, afhenti menntasprotann þann 20. febrúar sl. Í þakkarræðu sinni sagði Gunnþór Ingvason, m.a. að viðurkenningin skipti Síldarvinnsluna miklu máli. Það væri jafnframt staðreynd að aðeins 8,5% framhaldsskólanema segðist vilja vinna við sjávarútveg eða ferðaþjónustu, enda þótt 55% þeirra sjái þessar atvinnugreinar sem helstu vaxtargreinar íslensks atvinnulífs. Veruleg tækifæri séu að þessu leyti til staðar gagnvart ungu fólki og aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Menntasprotinn er afhendur árlega á menntadegi atvinnulífsins, samstarfsverkefni SAF, SFF, SFS, Samorku, SI, SVÞ og SA. Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar er menntasproti ársins útnefndur og hins vegar er menntafyrirtæki ársins valið og þetta árið féll síðarnefndi titillinn Marel í skaut.

Dómnefnd var skipuð Hildi Elínu Vignir, framkvæmdastjóra hjá Iðunni, Steini Loga Björnssyni, forstjóra, Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Þorsteini Sigfússyni, framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Nánar um menntasprota ársins 2015

 

Frétta og viðburðayfirlit