mobile navigation trigger mobile search trigger
06.01.2023

Stór áfangi í uppbyggingu á Orkugarði Austurlands

Fjarðabyggð og Fjarðarorka, félag í eigu Copenhagen Infrastructure Partners (CIP) hafa undirritað lóðarleigusamning um lóð á Reyðarfirði undir rafeldsneytisverksmiðju. Um er að ræða fyrsta lóðarleigusamning á Austurlandi undir starfsemi sem þessa og er hann afar mikilvægur áfangi í áframhaldandi uppbyggingu á Orkugarði Austurlands.

Stór áfangi í uppbyggingu á Orkugarði Austurlands

Um er að ræða 38 hektara lóð úr landi jarðanna Hólma og Flateyrar í Reyðarfirði. Í verksmiðju Fjarðarorku er ætlunin að framleitt verði rafeldsneyti til notkunar í skipum og bifreiðum. Við þá framleiðslu verða til aukaafurðir, varmi og súrefni, sem verða nýttar til frekari verðmætasköpunar í samfélaginu. Þar er meðal annars til skoðunar uppbygging á hitaveitu í Fjarðabyggð, framleiðsla á umhverfisvænum áburði, auk annars samstarfs við fyrirtæki innan og utan svæðisins um nýtingu á þessum afurðum.

Lóðarleigusamningurinn var afgreiddur samhljóða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar þann 28. desember sl. Samningstíminn er 35 ár frá 1. janúar 2026, en heimilt er við ákveðnar aðstæður að framlengja upphaf samningstíma um tvö ár.

Á meðfylgjandi mynd má sjá fulltrúa Fjarðabyggðar og Fjarðaorku við undirritun samningsins á Reyðarfirði í gær. Fyrir framan f.v., Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Magnús Bjarnason, stjórnarformaður Fjarðarorku og Jón Sveinsson, lögfræðingur Fjarðabyggðar. Fyrir aftan standa f.v., Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, forseti bæjarstjórnar, Kristinn Þór Jónasson bæjarfulltrúi og Þuríður Lillý Sigurðardóttir bæjarfulltrúi.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar:

“Lóðarleigusamningurinn er mikilvægur áfangi á leiðinni að rafeldsneytisframleiðslu á Reyðarfirði og uppbyggingar á Orkugarðinum og styður við markmið ríkisstjórnarinnar og sveitarfélagsins í umhverfis- og loftslagsmálum. Til að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar verður að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir umhverfisvænni kosti, og hér hefur verið stigið ákveðið skref í þá átt. Um leið er ég mjög ánægður með að Fjarðabyggð sé að skapa sér sess sem ákveðin miðstöð orkuskipta á Íslandi.”

Nánari upplýsingar veitir Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála hjá Fjarðabyggð thordur.vilberg@fjardabyggd.is eða í síma 771 9213

Frétta og viðburðayfirlit