mobile navigation trigger mobile search trigger
03.09.2021

Stórleikur í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardaginn

Laugardaginn 4. september kl. 13:00 spilar kvennalið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis seinni undanúrslitaleik sinn í úrslitakeppni 2. deildar gegn Fram. Ljóst er að liðið sem sigrar leikinn tryggir sér sæti í 1. deild á næsta tímabili og því er til mikils að vinna fyrir F/H/L.

Stórleikur í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardaginn
Fjaraðabyggð/Höttur/Leiknir. Ljósm. Austurfrétt

F/H/L tryggði sér góðan sigur í deildarkeppni 2. deildar í ágúst, en alltaf lá fyrir að fjögur efstu liðinn í deildinni myndu keppa innbyrðist um tvö laus sæti í 1. deild. Í þeirri úrslitakeppni lenti liðið á móti Fram, og fór fyrri leikur liðanna fram í Reykjavík um síðustu helgi og endaði hann með 1 – 1 jafntefli. 

Gengi F/H/L í sumar hefur verið afar gott, en liðið sigraði deildarkeppni 2. deildar örugglega, en það tapaði aðeins einum leik af 12 í allt sumar og skoraði í leikjum sínum 73 mörk. Spilamennska liðsins hefur vakið athygli, en liðið spilar afar skemmtilegan sóknarbolta og bjóða leikir þess alltaf upp á mikla skemmtun fyrir áhorfendur. 

Björgvin Karl Gunnarsson er þjálfir F/H/L og hann er að sjálfsögðu spenntur fyrir leiknum: „Þetta er klárlega stærsti leikur sem austfirskt kvennalið hefur spilað um árabil. Stelpurnar eru tilbúnar í verkefnið, og með góðum stuðningi áhorfenda sem munu standa þétt við bakið á þeim þá veit ég að þær munu leggja sig allar í verkefni og klára það með miklum sóma.“

Íbúar Fjarðabyggðar og austfirðingar allir eru hvattir til að mæta í Fjarðabyggðarhöllina á laugardaginn og styðja vel við bakið á stelpunum í þessum mikilvæga leik. Frítt er á völlinn í boði Egersund, Mannvit, Launafls, SÚN, Síldarvinnslunnar og Málningarþjónustu Jóns og Tóta.

Frétta og viðburðayfirlit