Samkvæmt Veðurstofu má búast við snjókomu í nótt sem gæti náð niður í 200-300 m hæð. Upp úr hádegi á morgun mun hlýna og snjólínan færast upp í 600-800 metra. Mest verður úrkoman í grennd við Vopnafjörð, Borgarfjörð Eystri og yfir fjöllunum norðan við Mjóafjörð. Úrkoma mun fara yfir 200 mm á öllum þessum stöðum. Búast má við talsverðum vatnavöxtum þegar rignir og hlánar.
Upplýsingar vegna slæmrar veðurspár framundan

Gert er ráð fyrir minni úrkomu á Seyðisfirði og á Eskifirði eða í kringum 100 mm. Samkvæmt kortunum er úrkomubakkinn ansi nærri Seyðisfirði svo vel verður fylgst með þar. Ef úrkoman verður meiri en spár gera ráð fyrir gæti þurft að grípa til aðgerða og yrði þá fyrsta tillaga Veðurstofu að huga að svæðinu undir Strandartindi (undir Þófanum). Í veðri sem spáð er getur orðið staðbundin úrkoma sem erfitt að er að spá fyrir. Veðurstofan er vakandi fyrir því. Snjóathugunarmenn eru á svæðunum og þeir verða augu Veðurstofu og eyru eins og ávallt. Búast má við vatnavöxtum á svæðinu, helst á Borgarfirði eystra og í grennd við Vopnafjörð.
Lögreglan hefur tilkynnt fyrirsvarsmönnum Síldarvinnslunnar um slæma spá vegna starfsemi hennar undir Strandartindi og þeir komnir í viðbragðsstöðu. Þá hefur lögreglan verið í viðræðum við Vegagerð varðandi hugsanlegar lokanir á fjallvegum í nótt, svo sem á Fjarðarheiði, Fagradal og Möðrudalsöræfum vegna snjókomu og fjölda vanbúinna ökutækja til vetraraksturs á sumartíma. Vegagerðin er viðbúin með snjómoksturstæki sem fyrsta viðbragð. Óvíst hvort kemur til lokana en tilkynningar og viðvaranir sendar út til ökumanna líkt og annars í svipuðum aðstæðum.