mobile navigation trigger mobile search trigger
10.03.2022

Auknar líkur á votum flóðum, krapaflóðum og skriðuföllum á Suðausturlandi og Austfjörðum

Mikilli rigningu er spáð á Suðausturlandi og Austfjörðum í dag fimmtudag og á morgun föstudag. Uppsöfnuð úrkoma frá fimmtudagseftirmiðdegi fram á laugardagsmorgun gæti víða orðið milli 200 og 300 mm til fjalla, mest á svæðinu frá Öræfum að Stöðvarfirði. Íbúar eru beðnir að huga að niðurföllum í nærumhverfi sínu.  

Auknar líkur á votum flóðum, krapaflóðum og skriðuföllum á Suðausturlandi og Austfjörðum

Hlýindi hafa verið á svæðinu í nokkra daga og snjór hefur blotnað og tekið upp. Enn er þó víða mikill snjór í giljum. Vott snjóflóð féll úr Hallbjarnarstaðartindi í Skriðdal á miðvikudagsmorgun og litlar votar spýjur hafa fallið víðar.

Búist er við vatnavöxtum og auknar líkur eru á skriðuföllum og grjóthruni, sér í lagi þar sem mest rignir. Einnig eru auknar líkur á votum snjóflóðum þar sem snjór er í fjöllum. Ekki er talin vera hætta í byggð en fylgst er með aðstæðum. Vert er að taka fram að á Seyðisfirði er búist við heldur minni rigningu en sunnar á Austfjörðum og litlar líkur eru taldar á að þessi rigning og leysing hafi teljandi áhrif á stöðugleika í gamla skriðusárinu. Náið verður fylgst með mælitækjum og þróun veðurs og aðstæðna.

Frétta og viðburðayfirlit