mobile navigation trigger mobile search trigger
22.07.2022

Glæsileg menningardagskrá í Fjarðabyggð um helgina

Það er margt að gerast í Fjarðabyggð um helgina og hér að neðan má sjá hluta af þeim viðburðum sem eru í boði. Lista- og menningarhátíðinni Innsævi sem staðið hefur yfir síðustu vikurnar lýkur síðan á sunnudaginn.

Glæsileg menningardagskrá í Fjarðabyggð um helgina
Ljósmyndasýningin STÖÐVARFJÖRÐUR (2017-2034) opnar í Þórsmörk í Neskaupstað í dag en hún kemur til með að vera opin til 31. Júlí.
Stöðvarfjörður er langtíma ljósmyndaverkefni sem ljósmyndarinn Alfredo Esparza Cárdenas frá Mexíkó byggir á þorpinu. Hér sýnir hann afrakstur af 4 ára vinnu þar sem hann hefur ljósmyndað hús og umhverfi Stöðvarfjarðar.
 
GMT verður sýnt í Molanum á Reyðarfirði, laugardag og sunnudag. GMT er örverk í þróun sem mætti skilgreina sem dans- og hreyfileikhús en sýningin er þátttökuverk og áhorfendum verður boðið að gera sig til með performerum og dansa með frumsaminni tónlist sérsniðinni að verkinu. Sviðslistahópurinn GMT leggur áherslu á litríka fagurfræði og fundið efni sem bæði gleður augu og styður umfjöllunarefni verksins.
 
Veggmynd á Fáskrúðsfirði verður vígð á Frönskum dögum á laugardaginn kl. 16:00. Ungir listamenn úr skapandi sumarstörfum í Fjarðabyggð lögðu lóð sína á vogarskálarnar og aðstoðuðu listamann úr heimabyggð, Marc Alexander sem býr á Fáskrúðsfirði, við að myndskeyta brú. Saman hafa þau mála nýja veggmynd sem Marc hannaði á sinn einstaka hátt á brúnna fyrir ofan Franska spítalann. Hin nýja veggmynd mun sýna samband Fáskrúðsfjarðar við hina frönsku arfleið auk tenginga við Austfirðina á skemmtilegan mátt.
 
Allt undir og allir um borð, mjá í gömlu Netagerðinni í Neskaupstað.
Listavélin kynnir Allt undir og allir um borð, mjá í gömlu Netagerðinni. Sýningin er lokapunktur í skapandi sumarstörfum Fjarðabyggðar og sýna þar listamennirnir verk sem þau hafa unnið í sumar. Opið Föstudag: 15 – 18. Laugardag: 12 – 15. Sunnudag: 14 – 16.
 
Ég tala pínu íslensku, á Beljandi í Breiðdalsvík.
Marc Alexander, sem flutti til Íslands frá Boston 2019 og býr nú á Fáskrúðsfirði tjáir djúpa ást sína á Íslandi með klippimyndum sínum og samsettri list. Hann vinnur með úrklippur sem hann hefur safnað saman sem sýna list, tónlist og tísku síðustu áratugi sem og ljósmyndir úr tískutímaritum, af íþróttum og lífi hinna ríku og frægu. Þessu öllu skeytir hann saman við íslenska náttúru þannig að úr verður ný merking og ný sýn á samfélagið.
 
Einnig er minnt á glæsilega dagskrá Franskra daga um helgina.

Frétta og viðburðayfirlit