mobile navigation trigger mobile search trigger
25.01.2024

Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar

Miðvikudaginn 13. desember s.l. heimsótti Jóna Árný, bæjarstjóri stofnanir Fjarðabyggðar á Eskifirði ásamt þeim Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu og Haraldi Líndal, upplýsingafulltrúa.  

Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Jóna Árný, bæjarstjóri ásamt Sigrúnu Traustadóttur, skólastjóra og Önnu Marín Þórarinsdóttur, stjórnanda fræðslumála og skólaþjónustu

Heimsóknin byrjaði í Grunnskólanum á Eskifirði, og tók þar á móti bæjarstjóra, Sigrún Traustadóttir, skólastjóri. Sest var niður með starfsfólki skólans og farið var yfir það helsta í skólastarfinu. Má þar nefna þemavikur, kærleiksvika og jólaball sem haldið var vikuna eftir hjá nemendum.  

Að loknum góðum umræðum var gengið um skólann og kíkt inn í kennslustundir hjá bæði eldri og yngri nemendum. Nemendur í 10. bekk voru í náttúrufræði og voru að læra um röntgentækni og hvernig tæknin virkar þegar verið er að taka t.d. röntgenmyndir af beinum. Í samtali við bæjarstjóra þá var m.a. rætt hvað tæki við eftir 10. bekk og stefndu allir nemendur á áframhaldandi nám og voru ýmsir skólar nefndir í því samhengi. Greinilegt er að töluverður áhugi er m.a. fyrir verkgreinum í Verkmenntaskóla Austurlands. Nemendur í 8. og 9. bekk voru í stærðfræðitíma og var verið að læra stærðfræðina m.a. í gegnum ýmiskonar spil og í 7. bekk var verið að vinna verkefni í íslensku. Í heimilisfræði voru blandaðir hópar og voru nemendur á fullu að baka piparkökur. Það er gaman að segja frá því að á hverju ári hefur skólinn fengið gefins kindaskrokka frá hjónunum Heiðbergi Hjelm og Sjöfn Gunnarsdóttur á Útsekk. Í skólanum hefur síðan Kristín Lukka frætt börnin um hvernig kjötið er unnið með því að kenna þeim að úrbeina, hakka og pakka kjötinu en einnig hvernig það er meðhöndlað og eldað.  

Aðstæður voru skoðaðar í bókasafninu sem hefur verið lokað undanfarna mánuði vegna viðgerða, en nú fer að koma að því að það verði opnað og unnið er hörðum höndum að raða bókum upp í hillur og gera allt klárt.  

Snillingadeildin er með aðsetur í Eskifjarðaskóla en það er elsta deildin í leikskólanum Dalborg, þar var einn nemandi úr 10. bekk í starfsnámi. Nemendum í 9. – 10. bekkjar stendur til boða að fara í vettvangskynningu yfir veturinn. Fara þau þá á vinnustaði og vinna með starfsmönnum og fá innsýn inn í verkefnin sem leysa þarf á hverjum stað. Mikil og góð þátttaka hefur verið hjá vinnustöðum á Eskifirði að taka á móti nemendum sem kunna greinilega vel að meta það að fá innsýn inn í störfin á svæðinu.  

Nokkrir nemendur voru að ljúka tíma í smíðavinnu þegar við komu við í smíðastofunni. Smíðastofan var ein af þeim stofum sem þurfti að loka þegar mygla kom upp síðasta vetur. Halldór sem er leiðbeinandi þurfti þá að sýna útsjónarsemi um það hvernig náminu yrði háttað. í stað þess að fella það niður voru kennslustundir færðar út, nemendur lærðu að tálga tré og búa til bekki úr pallettum sem svo hafa verið notaðir utandyra.  

Eftir heimsóknina í Eskifjarðaskóla var haldið yfir í leikskólann Dalborg, þar sem Þórdís Mjöll Benediktsdóttir tók á móti okkur. Gekk hún með okkur um leikskólann og fengum við innsýn inn í það starf sem fer þar fram. Í leikskólanum eru fjórar deildir sem heita Græna deild, Rauða deild, Bláa deild og Snillingadeild, sem er staðsett er í húsnæði grunnskólans. Í leikskólanum er 22 starfsmenn og 60 börn. Einkunnarorð skólans eru Hreinskilni, hugrekki og trú á eigin getu. Eftir að hafa gengið um skólann settumst við niður með starfsfólki og boðið var uppá heimabaka[ rúgbrauð með síld frá Eskju. Eins og í fyrri heimsóknum sköpuðust góðar umræður sem snúa að mörgum samfélagslegum málefnum.  

Frá leikskólanum Dalborg var haldið yfir í sundlaugina á Eskifriði en þar tók á móti okkur Jóhann Benediktsson, forstöðumaður sundlaugarinnar á Eskifirði, hann er einmitt bróðir Þórdísar leikskólastjóra. Gengið var um íþróttamiðstöðina og aðstæður skoðaðar, ásamt sundlaug er líkamsræktaraðstaða í húsinu og gufubað sem nýverið var aftur tekið í notkun eftir viðgerðir.  

Að lokum var svo haldið yfir í þjónustumiðstöðina þar sem Ari Sigursteinsson, bæjarverkstjóri og Helga Björk Einarsdóttir, garðyrkjustjóri tóku á móti okkur. Gengið var um aðstöðuna og hún skoðuð, eins og gefur að skilja voru flestir starfsmenn útá vettvangi enda í nógu að snúast hjá starfsfólki þjónustumiðstöðvanna þegar vetur skellur á.  

  

Bæjarstjóri hefur á undanförnum mánuðum heimsótt allar stofnanir sveitarfélagsins í Fjarðabyggð. Til stendur á nýju ári að halda ferðinni áfram og heimsækja meðal annars íbúa Mjóafjarðar og fyrirtæki í sveitarfélaginu.  

Fleiri myndir:
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Anna Marín, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, leikskólastjóri og Jóna Árný
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Starfsmenn sundlaugarinnar á Eskifirði, Svava Herdís Viggósdóttir, Aðalsteinn Ingi Magnússon, Jóhann Ragnar Benediktsson, María Hákonardóttir og Jóna Árný, bæjarstjóri
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar
Pálmar Ingi Hauksson, Magdalena Krawczyk, Lise Nygard, starfsmenn þjónustumiðstöðvar og Jóna Árný, bæjarstjóri
Heimsókn bæjarstjóra til Eskifjarðar

Frétta og viðburðayfirlit