mobile navigation trigger mobile search trigger
01.04.2022

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð fór fram við hátíðlega athöfn í Safnaðarheimilinu á Reyðarfirði fimmtudaginn 31. mars. Fjölmenni var á hátíðinni eða um 100 manns og mikið klappað fyrir frábærum lesurum sem lásu sögur og ljóð fyrir áheyrendur.

Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð
Katrín María Jónsdóttir, Unnur Þóra Örvarsdóttir og Máni Franz Jóhannsson

Stóra upplestrarkeppnin hófst í skólunum 16. nóvember síðastliðinn líkt og undangengin ár, á degi íslenskrar tungu en dagurinn er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Í framhaldinu tóku við æfingar í öllum 7. bekkjum skólanna, þar sem upplestur var þjálfaður, hugað að raddstyrk, hljómblæ, túlkun, framkomu, sambandi við áheyrendur og fleiri þáttum. Undankeppnir voru haldnar í skólunum og þrettán nemendur frá skólunum fimm unnu sér rétt til að keppa á Héraðshátíðinni.  

Dagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og einstaklega gaman var að hlýða á frábæran upplestur og enn ánægjulegra að fá húsfylli á hátíðina. Auk upplestrarins voru tvö tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar; Ásdís Olsen flutti Overture úr Carmen eftir Bizest á þverflautu og Viktoría Ósk Sigurðardóttir flutti lagið Móðir Mín í Kví Kví á altflautu.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri, flutti ávarp sem og Hrönn Reynisdóttir rithöfundur, en hún veitti einnig keppendum bókaverðlaun, viðurkenningar og rósir með aðstoð umsjónarmanns keppninnar Berglindar Óskar Guðgeirsdóttur. Íslandsbanki veitti verðlaun fyrir þrjú efstu sætin. 

Dómnefndin var skipuð Jarþrúði Ólafsdóttur, sem jafnframt var formaður dómnefndar, Guðrúnu Steinunnardóttur og Sigurbirni Marinóssyni. 

Sigurvegarar héraðshátíðarinnar voru

  1. sæti Unnur Þóra Örvarsdóttir - Nesskóla
  2. sæti Katrín María Jónsdóttir - Eskifjarðarskóla
  3. sæti Máni Franz Jóhannsson - Nesskóla
Fleiri myndir:
Héraðshátíð Stóru Upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð

Frétta og viðburðayfirlit