mobile navigation trigger mobile search trigger
07.02.2022

Jafnlaunakerfi og jafnlaunastefna Fjarðabyggðar

Fjarðabyggð uppfyllti kröfur í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 í ársbyrjun 2020 og fékk í kjölfarið jafnlaunamerkið. Sveitarfélagið hefur jafnframt sett sér jafnlaunastefnu og jafnréttisáætlun og unnið er að því að samþætta jafnréttissjónarmið í stefnum Fjarðabyggðar.

Jafnlaunakerfi og jafnlaunastefna Fjarðabyggðar

Jafnlaunavottun er formleg staðfesting á því að fyrirtæki eða sveitarfélög starfræki stjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur stjórnunarstaðalsins ÍST 85. Þannig er vottuninni ætlað að staðfesta að við launaákvarðanir séu málefnaleg sjónarmið höfð að leiðarljósi. Það þýðir meðal annars að laun hjá sveitarfélaginu eru ákveðin á sama hátt fyrir öll kyn og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum feli ekki í sér kynjamismunun.

Jafnlaunavottun á fyrirtæki eða sveitarfélög kemur ekki í veg fyrir að vinnustaðir greiði mismunandi laun á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, svo sem með tilliti til menntunar, reynslu, þekkingar, ábyrgðar, álags eða starfsaðstæðna. Auk þess kemur vottun ekki í veg fyrir að við launaákvörðun sé litið til einstaklingsbundinna þátta sem hafa áhrif á hvernig starfsmaður getur leyst starf sitt af hendi eða fela í sér mat á árangri í starfi. Launamunur milli einstaklinga er þannig ekki bannaður sem slíkur en ef hann er til staðar þarf hann að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum sem varða á engan hátt kynferði.

Jafnlaunavottun þýðir ekki að allir komi til með að vita hvað hver og einn starfsmaður er með í laun því þó að jafnlaunastaðallinn geri kröfu um að jafnlaunastefna fyrirtækis eða sveitarfélags sé aðgengileg og gefi nægjanlegar upplýsingar til að unnt sé að meta hvernig hún reynist, felur það ekki í sér að upplýst verði um launamál einstaklinga eða að allar launatölur skuli liggja frammi.

Staðallinn kveður á um að eðlilegt sé að upplýsingar um laun starfsmanna séu settar fram með tölfræði þannig að ekki sé hægt að tengja þær við einstaklinga.

Starfsmönnum er þó ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum kjósi þeir svo að gera. Þessi heimild hefur verið í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla síðan 2008. Það þýðir að atvinnurekendur geta ekki krafist þess af starfsfólki sínu að það semji sig undir ákvæði um launaleynd. Slík samningsákvæði eru óheimil og hafa því ekki gildi.

Jafnlaunakerfi Fjarðabyggðar byggir á þeirri stefnu að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að launamunur sé ekki til staðar. Bæjarstjóri ber ábyrgð á jafnlaunakerfi Fjarðabyggðar en Mannauðsstjóri ber ábyrgð á jafnlaunastefnu og að þeim lagalegu kröfum og öðrum kröfum sem tengjast jafnlaunakerfinu sé framfylgt. Umfang jafnlaunastefnunnar tekur til allra starfsmanna Fjarðabyggðar.

Til að framfylgja jafnlaunastefnu skuldbindur Fjarðabyggð sig til að skjalfesta, innleiða og viðhalda stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Fjarðabyggð framfylgir reglum um kjör starfsmanna og skilgreinir viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir sitt starf út frá verðmæti þess, óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. Markmið Fjarðabyggðar er að vera eftirsóttur vinnustaður og að allt starfsfólk, óháð kyni, hafi jöfn tækifæri í starfi skv. lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Til þess að viðhalda því markmiði mun Fjarðabyggð:

  • Viðhalda og skjalfesta vottuðu jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85.
  • Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athuga hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
  • Framkvæma árlega úttekt á jafnlaunastefnu og kerfi Fjarðabyggðar og fylgja eftir ábendingum og athugasemdum, ef einhverjar eru, varðandi launasamsetningu.
  • Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
  • Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
  • Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta hlítni við lög.
  • Kynna stefnuna árlega fyrir starfsmönnum Fjarðabyggðar. Stefnan skal einnig vera almenningi aðgengileg á ytri vef Fjarðabyggðar.

Jafnlaunaviðmiðin sem lögð eru til grundvallar við ákvörðun launa miðast við kröfur viðkomandi starfs. Öll störf eru flokkuð eftir starfsmati og þannig raðað í starfafjölskyldur þar sem saman raðast störf með sömu eða sambærilegar kröfur.

Störf eru metin út frá samræmdum starfslýsingum og við ákvörðun launa er starfsheitum raðað í samræmi við starfaflokkun starfsmats. Þar eru þær kröfur sem störfin gera til starfsmanna metnar með kerfisbundnum hætti. Til viðbótar við almenn viðmið sem liggja til grundvallar launum geta komið til launagreiðslur vegna álags, markaðsaðstæðna eða persónubundinna þátta.

Við hækkun launa sem ekki má rekja til samningsbundinna hækkana í kjarasamningnum skal fylgja rökstuðningur. Bæjarstjóri, mannauðsstjóri, bæjarritari og eða fjármálastjóri ákvarða launabreytingar allra starfsmanna og byggir ákvörðunin á launaviðmiðum Fjarðabyggðar.

Markmið Fjarðabyggðar er að það sé enginn óútskýrður munur á launum kynjanna hjá sveitafélaginu og ekki meiri en 3,5%. Ef upp kann að koma munur á launum kynja fyrir sambærileg störf skal sá munur skoðaður og leitað skýringa. Mannauðsstjóri útbýr áætlanir um umbótarverkefni um viðbrögð eftir framkvæmd launagreiningar og rýni stjórnenda skv. VR12 Frábrigði, úrbætur og forvarnir.

Sveitarfélagið framkvæmir árlega jafnlaunagreiningu en niðurstöður jafnlaunaúttektar sem framkvæmd var í janúar 2022 sýnir að óútskýrður kynbundinn launamunur hefur lækkað og er nú 0,1%  körlum í vil. Niðurstöður launagreininga 2021 sýndu óútskýrðan launamun upp á 0,55%. Það er ánægjulegt að launamunur mælist eins lítill og raun ber vitni, og minnkar milli ára, en þrátt fyrir það er mikilvægt að vera áfram vakandi fyrir öllu því sem getur haft áhrif á launamun.

Frétta og viðburðayfirlit