mobile navigation trigger mobile search trigger
02.09.2025

Skriðuföll og vatnsagi á Austfjörðum

Á vef Veðurstofu í dag má sjá að spáð er áframhaldandi talsverðri rigningu fram undir miðnætti í kvöld og styttir þá upp að mestu en spáð er skúrum á morgun.
Í dag hafa fallið nokkrar skriður í lækjarfarvegi víða á Austfjörðum, í Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Um er að ræða fremur litlar skriður eða jarðvegsfyllur sem falla út í læki og lita dökkbrúna og auka framburð ánna. Engin þeirra hefur valdið tjóni svo vitað sé.
Skriðuföll og vatnsagi á Austfjörðum
Þegar rignir af slíkri ákefð eins og í dag eykst yfirborðsrennsli hratt og vatn safnast í lækjarfarvegum. Með auknu rennsli eykst rof innan farvega og vatn litast mórautt. Aukið rennsli getur líka haft áhrif á stöðugleika árbakka og litlar fyllur eða skriðuspildur falla í læki og framburður lækja getur litað firði brúna eins og sést víða á Austfjörðum í dag.
Auknar líkur eru á skriðuföllum, svo sem grjóthruni, aurskriðum eða aurflóðum í lækjarfarvegum. Þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum getur verið hætta á skriðum og grjóthruni á vegi. Bent er á að fólk sýni aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfi í kringum sig og forðist að dvelja lengi innan og neðan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.
Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist sem fyrr náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði.
Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast með aðstæðum en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir Veðurstofuna að fá tilkynningar um skriður og grjóthrun. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið skriduvakt@vedur.is. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Frétta og viðburðayfirlit