Fræðslunefnd
13. fundur
10. mars 2015 kl. 16:30 - 00:00
í Molanum fundarherbergi 1
Nefndarmenn
Pálína Margeirsdóttir Formaður
Lísa Lotta Björnsdóttir Varaformaður
Óskar Þór Guðmundsson Aðalmaður
Margrét Perla Kolka Leifsdóttir Varamaður
Kjartan Glúmur Kjartansson Varamaður
Þóroddur Helgason Embættismaður
Bryndís Guðmundsdóttir Áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
Fundargerð ritaði:
Þóroddur Helgason Fræðslustjóri
Dagskrá
1.
Auka aðalfundur Skólaskrifstofu Austurlands 6.mars 2015
Farið var yfir fundargerð frá auka aðalfundi Skólaskrifstofu Austurlands sem haldinn var á Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði 6. mars s.l. Á umræddum fundi var samþykktur endurskoðaður stofnsamningur um Skólaskrifstofu Austurlands A- hluta. Helstu breytingar frá fyrri samningi eru þær að rekstrarleg ráðgjöf við sveitarfélög er tekin út sem og þjónusta kennslugagnasafns og fræðsla til foreldrafélaga. Sveitarfélögin taka hvert um sig þessa þjónustu yfir til sín. Þá er í nýjum samningi skilgreind hugtök er varðar sérfræðiþjónustu og farið ítarlega yfir verkefni skrifstofunnar. Betur er gerð grein fyrir þjónustu Skólaskrifstofu Austurlands við leikskólastigið og í samningnum er heimild til að veita framhaldsskólum sérfræðiþjónustu að undangenginni samþykkt gjaldskrár fyrir þjónustuna. Einnig kom fram í fundargerðinni að fulltrúar Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs hefðu gert grein fyrir vinnu við endurskoðun fræðslumála í sveitarfélögunum tveimur.
2.
Styrktarsjóður EBÍ 2015
Borist hefur bréf frá Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands frá 12. febrúar þar sem vakin er athygli á Styrktarsjóði EBÍ. Sjóðurinn styrkir sérstök framfaraverkefni á vegum sveitarfélaga, ekki almenn rekstrarverkefni. Framlög félagsins í sjóðinn eru 5 milljónir og umsóknarfrestur er til aprílloka. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að kynna bréfið fyrir sviðstjórum Fjarðabyggðar og hvetur sveitarfélagið til að senda inn umsókn.
3.
Beiðni um styrk - nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda - 2015
Borist hefur bréf, dagsett 11. febrúar, þar sem lögð er fram ósk um styrk frá Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG), verkefni sem hvetur til nýsköpunarkennslu í grunnskólum landsins. Nú þegar taka um 50 grunnskólar þátt að jafnaði með um 3000 umsóknir á landsvísu. Starfið fer fram allt árið um kring, með uppskeru í lok skólaárs. Tilgangur NKG er að gera einstaklingum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. Fræðslunefnd samþykkir styrk að upphæð 75 þúsund krónur og hvetur jafnframt grunnskólana í Fjarðabyggð til að nýta vel þá þjónustu sem NKG hefur uppá að bjóða.
4.
Niðurstöður úr Skólavoginni
Fræðslustjóri fór yfir nýjar niðurstöður úr Skólavoginni, rafrænu upplýsinga- og greiningakerfi fyrir sveitarfélög. Um er að ræða niðurstöður úr samræmdum prófum frá haustinu 2014 og nemendakönnun frá núverandi skólaári, en þess ber að geta að nú hafa rúmlega 10 þúsund nemendur í 6. - 10. bekk svarað könnuninni. Niðurstöður sýna að virkni og líðan nemenda í Fjarðabyggð er góð og sama má segja um skóla- og bekkjaranda. Niðurstöður úr samræmdum prófum í 4., 7. og 10. bekk haustið 2014 eru aðeins undir landsmeðaltali líkt og Austurland í heild. Þess má geta að nú eru skólar á Austurlandi að vinna saman að verkefninu, bættur námsárangur með áherslu á íslensku og stærðfræði og vonandi skilar það árangursríkara skólastarfi fyrir nemendur.