Fræðslunefnd
32. fundur
5. október 2016 kl. 16:30 - 18:30
í Molanum fundarherbergi 1 og 2
Nefndarmenn
Pálína Margeirsdóttir Formaður
Óskar Þór Guðmundsson Aðalmaður
Kjartan Glúmur Kjartansson Aðalmaður
Guðlaug Dana Andrésdóttir Aðalmaður
Starfsmenn
Þóroddur Helgason Áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði:
Þóroddur Helgason Fræðslustjóri
Dagskrá
1.
Ung fólk 2016 - lýðheilsa ungs fólks í Fjarðabyggð
Fyrir liggur skýrsla Rannsóknar og Greiningar um lýðheilsu ungs fólks í Fjarðabyggð. Skýrslan birtir niðurstöður úr könnun sem gerð var meðal nemenda í 8.-10. bekk grunnskóla í febrúar 2016. Birtur er samanburður á Fjarðabyggð, Höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu. Í heild eru niðurstöðurnar mjög jákvæðar og flott ungt fólk bæði hér í Fjarðabyggð sem annars staðar á landinu. Vímuefnaneysla er mjög lítil og það á við um tóbak, áfengi sem og önnur vímuefni. Íþrótta- og tómstundaþátttaka er mikil og nemendur telja sig örugga í því umhverfi sem þeir eru í dags daglega. Nemendur eru í góðum og miklum samskiptum við foreldra og samband þeirra við kennara er gott og er mun betra en það mældist 2014. Flestum nemendum líður vel í skólanum, en þó skera stúlkur í 8. bekk sig úr en þar er líðan í skóla ekki nægilega góð. Í niðurstöðunum kemur fram að nemendur telja lestrarörðugleika hafa hamlandi áhrif á námsframmistöðu sína og það er meira hér í Fjarðabyggð en hjá nemendum annars staðar á landinu. Það er vaxandi kvíði og þunglyndi meðal stelpna á landinu öllu og þar eru stelpur í Fjarðabyggð ekki undantekning, sem er áhyggjuefni, en einnig svefn nemenda sem er of lítill, en um 30 - 40% nemenda sofa 7 klst eða minna á sólarhring, aðeins misjafnt eftir árgöngum. Fylgni er á milli mikils kvíða og þunglyndis og lítils svefns og mikillar notkunar á samskiptamiðlum. Niðurstöðurnar voru kynntar á fundum með foreldrum grunnskóla þriðjudaginn 27. september. Haldnir voru tveir fundir í Fjarðabyggð, á Norðfirði og Fáskrúðsfirði. Samtals mættu rúmlega 30 manns. Á vel lukkuðu málþingi um geðrækt sem haldið var laugardaginn 1. október í Grunnskóla Reyðarfjarðar var einnig farið yfir niðurstöður. Á málþingið mættu um 130 manns víðs vegar að af Austurlandi. Fræðslunefnd fagnar aukinni umræðu um lýðheilsu og felur fræðslustjóra að fara vel yfir niðurstöðurnar með starfsliði fjölskyldusviðs þannig að hægt verði að bregðast sem fyrst við þeim þáttum sem koma ekki nægilega vel út og um leið að vinna að því að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur á mörgum sviðum. Fræðslunefnd telur mikilvægt að niðurstöðurnar verði einnig kynntar fyrir nemendum.
2.
Fjárheimildir í fjárhagsáætlun 2017 - fræðslunefnd
Fræðslunefnd fór yfir drög að starfsáætlun fyrir árið 2017 og fjárheimildir sem nefndin hefur til reksturs málaflokksins. Rekstraráætlunin tekur mið af úthlutunarreglum grunnskóla og drögum að úthlutunarreglum fyrir leikskóla. Þegar farið hefur verið yfir alla þætti áætlunarinnar er fjárþörf upp á 20 milljónir svo hægt verði að vera innan úthlutaðra fjárheimilda. Ræddir voru möguleikar sem grípa mætti til ef ekki er unnt að bæta við fjárhagsrammann. Fræðlustjóra falið að semja minnisblað til bæjarráðs þar sem farið er yfir áherslur nefndarinnar í fjárhagsvinnunni og tillögum nefndarinnar.
3.
Viðmiðunarreglur um úthlutun stöðugilda til leikskóla í Fjarðabyggð
Fjallað var um drög að viðmiðunarreglum um úthlutun tímamagns til leikskóla. Fræðlunefnd samþykkir fyrirliggjandi drög og vísar þeim til afgreiðslu bæjarráðs.