Fara í efni

Bæjarráð

671. fundur
10. júlí 2020 kl. 08:30 - 10:30
í Molanum fundarherbergi 3
Nefndarmenn
Eydís Ásbjörnsdóttir formaður
Jón Björn Hákonarson varaformaður
Dýrunn Pála Skaftadóttir aðalmaður
Rúnar Már Gunnarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
Gunnar Jónsson embættismaður
Stefán Aspar Stefánsson embættismaður
Fundargerð ritaði:
Stefán Aspar Stefánsson Stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá
1.
Umhverfisstefna Fjarðabyggðar
Málsnúmer 1704067
Umhverfisstjóri mætti á fund bæjarráðs og kynnti drög að umhverfisstefnu Fjarðabyggðar 2018 - 2022. Bæjarráð þakkar umhverfisstjóra fyrir góða kynningu.
2.
Fulltrúi Umhverfisstofnunar í Fjarðabyggð
Málsnúmer 2007020
Lára Björnsdóttir, sérfræðingur frá Umhverfisstofnun kom á fund bæjarráðs og kynnti starfið. Bæjarráð óskar Láru til hamingju með starfið og þakkar henni fyrir kynninguna. Bæjarráð lýsir ánægju með að starf sérfræðings Umhverfisstofnunar sé orðið að veruleika á Austurlandi.
3.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2021 - 2024 - TRÚNAÐARMÁL
Málsnúmer 2005017
Tillaga að rammaúthlutun Fjarðabyggðar á árinu 2021.
Bæjarráð samþykkir rammana og vísar til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
4.
Rekstur málaflokka 2020 - TRÚNAÐARMÁL
Málsnúmer 2004074
Framlagt sem trúnaðarmál yfirlit um rekstur málaflokka og framkvæmdir janúar - maí 2020, skatttekjur og launakostnað janúar - júní 2020.
Fjármálastjóri kynnti yfirlit.
5.
Fjárhagsáætlun 2020 - viðauki 3 - fyrirspurn
Málsnúmer 2007013
Fyrirspurn Sjálfstæðisflokks um áhrif viðauka 3 við fjárhagsáætlun 2020 og lögð fram greinargerð fjármálastjóra.

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks lýsa yfir þungum áhyggjum af fjármálum sveitarfélagsins. Horfið hefur verið frá grunnmarkmiðum fjárhagsáætlunar en markmið hennar hefur verið að tryggja að bæjarsjóður standi undir afborgunum lána ásamt öðrum skuldbindingum með því að gæta að jafnvægi sé á milli tekna og gjalda. Lækki tekjur þarf að tryggja að gjöld lækki á móti, svo að sveitarfélagið sé ekki rekið með tapi. Hallarekstur grefur undan rekstrargrundvelli til bæði skemmri og lengri tíma litið. Síðara markmið undanfarinna fjárhagsáætlana hefur verið það að taka ekki ekki lán fyrir rekstri sem vikið hefur verið frá á þessu kjörtímabili til að mæta auknum útgjöldum sveitarfélagsins.
Nauðsynlegt er að bregðast við aðstæðum hverju sinni með aðgerðum til að lina efnahagsáhrif eins og nú vegna veirufaraldursins en fyrirhugaðar lántökur og aukin rekstrargjöld undanfarin misseri eru einungis að hluta til vegna aðgerða til að bregðast við efnahagslegum áhrifum veirufalaldursins. Verkefni fara ítrekað langt fram úr áætlunum án þess að brugðist sé við í tæka tíð samhliða því að rekstrarkostnaður hefur verið að aukast án þess að tekjur verði á móti. Nauðsynlegt er að huga að viðsnúningi frá lántökum og til sjálfbærari reksturs sveitarfélagsins enda er sveitarfélaginu "skylt að vinna áfram að lækkun skuldaviðmiða, m.a. til að lækka vaxtargreiðslur og afborganir og hafa þannig aukið svigrúm til að auka þjónustu og byggja upp innviði sveitarfélagsins" eins og stendur í núgildandi fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar.

Bókun fulltrúa Fjarðalista og Framsóknarflokks:

Fyrir liggur svar fjármálastjóra við spurningum Dýrunnar Pálu Skaptadóttur við áður samþykktri lántöku allra fulltrúa bæjarráðs á fundi 6. júlí 2020. Ljóst er að efnahagsleg áhrif Covid-19 munu verða veruleg fyrir ríki og sveitarfélög á þessu ári og mikil óvissa er uppi með framtíðina. Þá hefur faraldurinn áhrif á atvinnulífið með ýmsum hætti ásamt öðrum þáttum í umhverfinu sem aftur hafa dregið saman tekjur sveitarfélagsins. Á sama tíma er mikil þörf fyrir að haldið verði uppi atvinnustigi eins og kostur er og staðinn vörður um félagslega þjónustu fyrir íbúana sem á slíku þurfa að halda. Þetta eru þau markmið sem sveitarfélagið þarf að sinna núna og takast á við breytta stöðu hverju sinni með hag íbúa sinna og samfélagsins alls að leiðarljósi. Hvort sem það passar inn í exelskjal Sjálfstæðis- og Miðflokkssins í Fjarðabyggð sem nú virðast ætla í niðurskurð á þjónustu og framkvæmdum sveitarfélagsins þegar óljóst er hvert samfélagið á Íslandi stefnir og brýnt er að samstaða ríki um að spyrna við fótum og halda vel utan um íbúana.

Þá er vert að hafa í huga að ríki og sveitarfélög eru nú að auka lántöku til að bregðast við þessum fordæmalausu aðstæðum.

6.
Sundlaug Íþróttamiðstöðvar Reyðarfjarðar
Málsnúmer 1908022
Framlagðar umsagnir eigna-, skipulags og umhverfisnefndar, íþrótta- og tómstundanefndar og fræðslunefndar varðandi viðgerð á sundlauginni á Reyðarfirði.
Bæjarráð samþykkir tillögu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar um að farið verði í að dúkaleggja sundlaugina á Reyðarfirði vorið 2021 og að sundkennsla verði á Eskifirði á haustönn 2020. Bæjarráð felur framkvæmdasviði og eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd að vinna málið áfram og málinu vísað til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
7.
Uppbygging íþróttahúss á Reyðarfirði
Málsnúmer 2004112
Framlagðar umsagnir eigna-, skipulags og umhverfisnefndar, íþrótta- og tómstundanefndar og fræðslunefndar varðandi uppbyggingu íþróttahúss á Reyðarfirði.

Bæjarráð samþykkir að farið verði í jarðvegsframkvæmdir nú í júlí vegna byggingarinnar meðan grunnskólinn er í sumarfríi og þeim lokið áður en hann hefst að nýju og byggingasvæðið þá afgirt til að hægt sé að halda áfram í framkvæmdum á því án þess að trufla skólahald. Þá verði samhliða farið í endanlega hönnun hússins og frekari undirbúning byggingarinnar og verkinu skipt í mismunandi verkþætti sem boðnir verði út samhliða gangi verksins.
Framkvæmdir og hönnun eru þegar fjármagnaðar.
8.
Vatnsveita, nýr vatnstankur í Fannardal
Málsnúmer 2007035
Tilboð í verkið nýr vatnstankur í Fannardal.
Bæjarráð samþykkir tilboð MVA sem lægstbjóðandi í verkið og felur sviðsstjóra framkvæmdasviðs frágang málsins. Jafnframt er málinu vísað til eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar til umsagnar um frávikstilboð.
9.
Tölvur í skólum Fjarðabyggðar
Málsnúmer 2005112
Framlagðar niðurstöður úr örútboði á tölvum fyrir grunnskóla Fjarðabyggðar. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 15. júní sl. að farið verði í verðkönnun með kaup á tölvubúnaði og málið yrði tekið fyrir að nýju í bæjarráði.
Bæjarráð samþykkir að taka lægsta tilboði miðað við kröfulýsingu og felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs og fjármálastjóra að fjármagna kaupin innan fjárhagsramma fræðslumála.
10.
Uppbygging ljósleiðarakerfa í þéttbýli Fjarðabyggðar
Málsnúmer 2007041
Lögð fram á fundi drög að umsögn bæjarráðs vegna greiningar á markaðsaðstæðum og samkeppni á fjarskiptamarkaði.
Bæjarráð felur bæjarritara að senda umsögn til Póst- og fjarskiptastofnunar og til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
11.
Uppbygging félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19
Málsnúmer 2007024
Framlagðar til kynningar stöðuskýrslur uppbyggingarteymis félags- og atvinnumála sem félagsmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga komu á fót í kjölfar COVID-19.
12.
Íþrótta- og tómstundanefnd - 76
Málsnúmer 2007001F
Fundargerð íþrótta- og tómstundanefndar frá 6. júlí tekin til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir í umboði bæjarstjórnar fundargerðina.
13.
Fræðslunefnd - 86
Málsnúmer 2007002F
Fundargerð fræðslunefndar frá 8. júlí lögð fram til afgreiðslu.
Bæjarráð samþykkir í umboði bæjarstjórnar samþykktina.