Fara í efni

Bæjarstjórn

364. fundur
30. nóvember 2023 kl. 16:00 - 17:55
í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði
Nefndarmenn
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir varamaður
Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar
Þuríður Lillý Sigurðardóttir aðalmaður
Hjördís H. Seljan Þóroddsdóttir 1. varaforseti bæjarstjórnar
Stefán Þór Eysteinsson aðalmaður
Ragnar Sigurðsson aðalmaður
Kristinn Þór Jónasson aðalmaður
Þórdís Mjöll Benediktsdóttir aðalmaður
Heimir Snær Gylfason aðalmaður
Starfsmenn
Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri
Þórður Vilberg Guðmundsson embættismaður
Haraldur Líndal Haraldsson embættismaður
Fundargerð ritaði:
Þórður Vilberg Guðmundsson forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála
Dagskrá
1.
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2024 - Síðari umræða
Málsnúmer 2305061
Bæjarstjóri mælti fyrir fjárhagsáætlun við síðari umræðu.

Vísað frá bæjarráði til afgreiðslu bæjarstjórnar breytingartillögu við síðari umræðu um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar og stofnana fyrir árið 2024 og 3ja ára áætlun fyrir árin 2025 til 2027.

Niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir 2024 eru þessar:

Rekstrarniðurstaða:
Samstæða A-hluta 109 m.kr.
Samstæða B-hluta 443 m.kr.
Samstæða A og B hluta 552 m.kr.

Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum:
Samstæða A-hluta 265 m.kr.
Samstæða B-hluta 665 m.kr.
Samstæða A og B hluta 930 m.kr.
Stofnframlög til húsnæðisfélaga A-hluta 53 m.kr.

Afborganir langtímalána og leiguskuldbindinga:
Samstæða A-hluta 333 m.kr.
Samstæða B-hluta 100 m.kr.
Samstæða A og B hluta 433 m.kr

Skuldir og skuldbindingar A hluta verði 11.4 mi.kr. og samstæðunnar í heild 10.9 mi. kr. í árslok 2024.

Eigið fé er áætlað að nemi 838 m. kr. í A hluta og 7.7 mi. kr. í samstæðu A og B hluta í árslok 2024.

Til máls tóku: Jóna Árný Þórðardóttir, Jón Björn Hákonarson, sem lagði fram bókun Framsóknarflokks og Fjarðalista, Heimir Snær Gylfason sem lagði fram bókun Sjálfstæðisflokksins, Stefán Þór Eysteinsson, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, Kristinn Þór Jónasson, Ragnar Sigurðsson, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Þuríður Lillý Sigurðardóttir og Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Bókun Framsóknarflokks og Fjarðalista:

"Meirihluti Framsóknar og Fjarðalista vill við síðari umræðu í bæjarstjórn, um Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar og stofnana fyrir árið 2024 og þriggja ára áætlun, leggja áherslu á eftirfarandi.
Efnahagslegt umhverfi hérlendis hefur verið þungt í skauti fyrir sveitarfélög landsins, sem og annað atvinnulíf og íbúa, í ljósi verðbólgu og vaxtaumhverfis sem hefur ekki verið hærra frá efnahagshruninu árið 2008. Rekstur Fjarðabyggðar er þar engin undantekning enda hefur ávallt verið ljóst að rekstur fjölkjarna sveitarfélaga eins og Fjarðabyggð er umfangsmikill og að sama skapi kostnaðarsamur. Engu að síður gera þessar fyrri sameiningar sveitarfélaganna gömlu, sem nú eru hluti af Fjarðabyggð, samfélagið sterkara til að takast á við efnahagsleg áföll og eflir slagkraft þess til að sækja fram og tryggja íbúum sínum góða þjónustu þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi.

Það er þó viðvarandi verkefni bæjarstjórna sveitarfélagsins hverju sinni að rýna rekstur þess og móta stefnu til framtíðar sem gerir rekstur þess sjálfbæran og samfélagið sterkara til að Þjónusta íbúa þess og byggja upp til framtíðar. Á því er engin undantekning nú og hafin er vinna við að skoða alla þætti reksturs sveitarfélagsins og vonandi mun nást góð pólitísk sátt um áframhald þeirrar vinnu á vettvangi bæjarstjórnar.

Meirihluti Framsóknar og Fjarðalista mun halda áfram á þeirri braut þrátt fyrir að nú sé vinnu við fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2024 lokið og mun móta tillögur að breytingum á rekstri sveitarfélagsins á komandi misserum á grundvelli vandaðrar vinnu og upplýsinga sem þurfa að liggja fyrir við slíka vinnu. Mikilvægt er að hafa í huga að í rekstri samfélags þarf að taka tillit til margra þátta, samhliða efnahagslegum áherslum, til að það eflist og dafni ásamt því að halda vel utan um íbúa sína.

Tveir starfshópar eru nú að störfum sem skila eiga niðurstöðum sínum á fyrstu mánuðum nýs árs. Annarsvegar er það starfshópur um íþróttamannvirki og framtíðarstefnumótun í íþróttamálum í Fjarðabyggð og hinsvegar starfshópur um fræðslumál. Báðir eru þessir málaflokkar umfangsmiklir í rekstri sveitarfélagsins og að sama skapi mikilvægar grunnstoðir í samfélaginu. Á grundvelli þessarar vinnu verða mótaðar tillögur til framtíðar sem munu hafa áhrif á rekstur sveitarfélagsins og grundvallaratriði er að upplýsingar sem slík vinna og tillögugerð munu byggja á sé vönduð. Munu tillögur þess efnis verða lagðar fyrir nefndir og bæjarstjórn á nýju ári.

Þá er mikilvægt að skoða alla þætti reksturs sveitarfélagsins eins og áður segir og þar með talið nefndakerfi þess. Tillaga um breytingar á nefndum sveitarfélagsins verður lögð fram í desember komandi þar sem nefndir verða sameinaðar í samræmi við breytingar í stjórnkerfi sveitarfélagsins og með því mun nást fram fjárhagslegur sparnaður samhliða því að efla þær sem fagnefndir. Munu umhverfis- og skipulagsnefnd og mannvirkja- og veitunefnd verða sameinaðar í skipulags-og framkvæmdanefnd sem verður sjö manna nefnd. Gert er ráð fyrir að sú breyting gangi í gegn í janúar komandi. Þá verða fræðslunefnd, félagsmálanefnd og íþrótta- og tómstundanefnd sameinaðar í fjölskyldunefnd fyrir vor 2024 sem sömuleiðis verður sjö manna nefnd. Hafnarstjórn verður óbreytt og Stjórn menningar- og safnastofnunar verður undir bæjarráði sem þriggja manna nefnd. Annað sem skoðað verður er að ávinningur þess að finna félagsmiðstöðum sveitarfélagsins önnur heimili verður skoðaður, t.d. innan skólana í þeim kjörnum þar sem það á við, með það fyrir augum að efla félagslíf barna og unglinga.

Megintilgangur allrar þessarar vinnu er að gera sveitarfélagið fjárhagslega betur í stakk búið til að takast á við framtíð sína en um leið að efla það til að sækja fram og þjónusta íbúa sína vel. Efling samfélagsins verður því áfram okkar leiðarljós í bæjarstjórn Fjarðabyggðar."

Bókun Sjálfstæðisflokksins:
"Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2024 til 2027 endurspeglar aðkallandi þörf á heildarendurskoðun og forgangröðun rekstrar sveitarfélagsins. Þrátt fyrir aðhaldskröfu undanfarið ár gerir útgönguspá sveitarfélagsins fyrir árið 2023 ráð fyrir 79 milljóna kr. halla á A- hluta sveitarfélagsins. Ljóst er að ekki er stigið nægilega fast til jarðar í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun og til að áætlunin standist þurfa allar forsendur að ganga eftir og kallar það á mikinn aga að hálfu stjórnenda sveitarfélagsins og stefnufestu bæjarstjórnar.

Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir því að þörfin fyrir framkvæmdum ásamt endurbótum og viðhaldi dragist saman. Það verður að teljast fullkomlega óraunhæft þar sem sveitarfélagið er með að lágmarki 2. milljarða króna uppsafnaða viðhaldsþörf. Það gefur auga leið að þörf verður á frekara viðhaldi sem mun hafa að öllu óbreyttu áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Þrátt fyrir dregið sé úr fjármagni til fjárfestinga og viðhalds á næstu árum er stendur A- hlutinn ekki undir þeirri fjárfestinga- og viðhaldsþörf og þarf áfram að treysta á lántöku frá B-hluta fyrirtækjarekstri sveitarfélagsins. Í áætluninni er gert ráð fyrir því að skammtímaskuldir við B-hlutann hækki um tæpar 130 m. kr. á næsta ári ofan í þá 200 m. kr. hækkun vegna yfirstandandi árs.

Á áætlunartímanum er gert ráð fyrir því að skuldastaða sveitarfélagsins haldist tiltölulega óbreytt sem verður að teljast óraunhæft með tilliti til viðhaldsþarfar. Einsýnt er að þörf er á hagræðingu innan sveitarfélagsins þar sem reksturinn stendur ekki undir sér þrátt fyrir miklar gjaldskrárhækkanir á næsta ári."

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfestir með 5 atkvæðum fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2024, og þriggja ára fjárhagsáætlun 2025 - 2027. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Sigurðsson, Kristinn Þór Jónasson, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir og Heimir Snær Gylfason greiða atkvæði á móti.
2.
Bæjarráð - 823
Málsnúmer 2311015F
Fundargerðir bæjarráðs nr. 823. og 824. lagðar fram til umfjöllunar og afgreiðslu saman.

Til máls tóku: Stefán Þór Eysteinsson, Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Ragnar Sigurðsson, Jón Björn Hákonarson og Jóna Árný Þórðardóttir

Fundargerð 823. fundar bæjarráðs frá 20. nóvember er staðfest með 9 atkvæðum.
3.
Bæjarráð - 824
Málsnúmer 2311021F
Fundargerðir bæjarráðs nr. 823. og 824. lagðar fram til umfjöllunar og afgreiðslu saman.

Til máls tóku: Stefán Þór Eysteinsson, Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Ragnar Sigurðsson, Jón Björn Hákonarson og Jóna Árný Þórðardóttir

Fundargerð 824. fundar bæjarráðs frá 27. nóvember er staðfest með 9 greiddum atkvæðum
4.
Félagsmálanefnd - 172
Málsnúmer 2311010F
Fundargerðir félagsmálanefndar nr. 172 og 173. lagðar fram til umfjöllunar og afgreiðslu saman.

Til máls tók: Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir

Fundargerðir félagsmálanefndar nr. 172 og 173. eru staðfestar með 9 greiddum atkvæðum
5.
Félagsmálanefnd - 173
Málsnúmer 2311012F
Fundargerðir félagsmálanefndar nr. 172 og 173. lagðar fram til umfjöllunar og afgreiðslu saman.

Til máls tók: Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir

Fundargerð félagsmálanefndar nr. 173 er staðfest með x greiddum atkvæðum.
6.
Umhverfis- og skipulagsnefnd - 39
Málsnúmer 2311016F
Fundargerð 39. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar frá 21. nóvember lögð fram til umfjöllunar og afgreiðslu.

Til máls tók: Þuríður Lillý Sigurðardóttir

Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar nr. 39 er staðfest með 9 greiddum atkvæðum.
7.
Íþrótta- og tómstundanefnd - 127
Málsnúmer 2311008F
Fundargerð 127. fundar íþrótta- og tómstundanefndar frá 13. nóvember lögð fram til umfjöllunar og afgreiðslu.

Engin tók til máls.

Fundargerð 127. fundar íþrótta- og tómstundanefndar frá 13. nóvember er staðfest með 9 greiddum atkvæðum.
8.
Hafnarstjórn - 304
Málsnúmer 2311017F
Fundargerð 304. fundar hafnarstjórnar frá 20. nóvember tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.

Til máls tók: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.

Fundargerð hafnarstjórnar nr. 304 er staðfest með 9 greiddum atkvæðum.
9.
Ungmennaráð - 8
Málsnúmer 2310033F
Fundargerð 8. fundar ungmennaráðs frá 1. nóvember lögð fram til umfjöllunar og afgreiðslu.

Engin tók til máls

Fundargerð ungmennaráðs nr. 8 er staðfest með 9 greiddum atkvæðum
10.
Fjárhagsáætlun 2023 - viðauki 4
Málsnúmer 2311104
Bæjarstjóri mælti fyrir viðauka 4 við fjárhagsáætlun 2023.

Vísað frá bæjarráði til staðfestingar bæjarstjórnar viðauka 4 við fjárhagsáætlun 2023.

Framlagður viðauki 4 við fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar árið 2023 vegna framkvæmda í fráveitu, lækkun fjárfestinga hafnarsjóðs, auknum framlögum til málaflokks fatlaðs fólks, tilfærslu á stofnframlögum til íbúðabygginga, úthlutun á fjármunum til símenntunar og veikindalauna auk fjármögnunar kostnaðar nýrra kjarasamninga.

Hækkun á fjárfestingu Fráveitu vegna Tröllavegs nemur 54,7 m.kr.
Lækkun á fjárfestingu Fjarðabyggðahafna vegna Eskifjarðarhafnar nemur 54,7 m.kr.
Hækkun á framlögum Jöfnunarsjóðs í skatttekjum nemur 99,7 m.kr. vegna aukins framlags til málefna fatlaðs fólks.
Lækkun á framlögðum Jöfnunarsjóðs til málefna fatlaðra í félagsþjónustu nemur 22,6 m.kr.
Tilfærsla á stofnframlögum til byggingu íbúða fyrir tekjulága nemur 34 m.kr. frá fjárfestingarlið Félagslegra íbúða til stofnframlaga í efnahagsreikningi aðalsjóðs.
Tilfærsla á fjármagni til símenntunar nemur 11,6 m.kr. frá málaflokknum sameiginlegur kostnaður til stofnana í a hluta.
Hækkun á launakostnaði samstæðu vegna breytinga á kjarasamningum nemur 39,6 m.kr. sem skiptist milli deilda og sviða innan a- og b-hluta fjárhagsáætlunar.
Hækkun á kostnaði vegna veikinda nemur 8,1 m.kr.
Tilfærsla á fjármagni til að mæta veikindum starfsmanna stofnana fyrstu 10 mánuði ársins nemur 48,1 m.kr. frá málaflokknum sameiginlegum kostnaði til stofnana í a og b hluta en 40 m.kr. voru áætlaðar til að mæta útgjöldum.

Viðauki 4 hefur þau áhrif á fjárhag Fjarðabyggðar að sjóðsstaða samstæðunnar batnar um 29,5 m.kr. og er gert ráð fyrir að handbært fé verði 424 m.kr. í árslok 2023. Eigið fé Aðalsjóðs og samstæðu Fjarðabyggðar ásamt viðskiptareikningum a- og b hluta stofnana og aðalsjóðs tekur breytingum sem af viðaukanum leiðir.

Engin tók til máls.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfestir með 9 greiddum atkvæðum viðauka 4 við fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2023
11.
Stjórnkerfisnefnd 2020-2023
Málsnúmer 2011203
Forseti mælti fyrir málinu.

Vísað frá bæjarráðu til staðfestingar bæjarstjórnar tillögum stjórnkerfisnefndar að breytingum á stjórnskipun Fjarðabyggðar. Lagt er til að safnastofnun Fjarðabyggðar verði sameinuð Menningarstofu Fjarðabyggðar og verkefni minja- og skjalasafna falli undir starfsemi menningarstofu. Um leið færist verkefni bókasafna til grunnskóla sveitarfélagsins. Meirihluti stjórnkerfisnefndar samþykkt tillöguna á fundi sínum þann 27.nóvember 2023, en Ragnar Sigurðsson kaus á móti tillögunni á fundinum.

Til máls tóku: Ragnar Sigurðsson og Stefán Þór Eysteinsson

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfestir tillögu stjórnkerfisnefndar með 5 greiddum atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Ragnar Sigurðsson, Kristinn Þór Jónasson, Heimir Snær Gylfason og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir greiddu atkvæði á móti tilögunni.
12.
Umsókn um lán frá Ofanflóðasjóði 2023
Málsnúmer 2311139
Bæjarstjóri mælti fyrir lántöku hjá Ofanflóðasjóði.

Vísað frá bæjarráði til staðfestingar bæjarstjórnar umsókn um lántöku að fjárhæð 27.687.000 kr. hjá Ofanflóðasjóði vegna hlutdeildar Fjarðabyggðar í framkvæmdum við ofanflóðavarnir á tímabilinu nóvember - desember 2022 og janúar - september árið 2023

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkir með 9 atkvæðum að sótt verði um lán hjá Ofanflóðasjóði.
13.
Skipan ungmennaráðs 2023-2024
Málsnúmer 2311136
Forseti mælti fyrir skipun ungmennaráðs 2023 - 2024.

Vísað frá bæjarráði til staðfestingar bæjarstjórnar skipun ungmennaráðs 2023 - 2024, en skipan ráðsins hefur tekið breytingum frá síðasta skólaári.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar staðfestir með 9 atkvæðum skipan ungmennaráðs 2023 - 2024. Jafnframt óskar bæjarstjórn nýjum fulltrúum til hamingju kjörið, og óskar einnig ungmennaráði velfarnaðar í störfum sínum.