Fara í efni

Fræðslunefnd

35. fundur
11. janúar 2017 kl. 16:30 - 18:30
í Molanum fundarherbergi 1
Nefndarmenn
Pálína Margeirsdóttir Formaður
Elvar Jónsson Aðalmaður
Kjartan Glúmur Kjartansson Aðalmaður
Guðlaug Dana Andrésdóttir Varaformaður
Starfsmenn
Þóroddur Helgason Áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði:
Þóroddur Helgason fræðslustjóri
Dagskrá
1.
Viðmiðunarreglur um úthlutun stöðugilda til leikskóla í Fjarðabyggð
Málsnúmer 1603038
Fyrir liggja viðmiðunarreglur um úthlutun tímamagns til leikskóla í Fjarðabyggð og minnisblað um áhrif reglnanna. Fjárhagsáætlun 2017 tekur mið af reglunum. Fræðslunefnd samþykkir reglurnar og vísar þeim til frekari umræðu og samþykktar í bæjarráði.
2.
Sumarleyfi leikskólanna í Fjarðabyggð 2017
Málsnúmer 1612043
Fyrir liggur minnisblað fræðslustjóra með tillögu að sumarleyfum leikskóla í Fjarðabyggð sumarið 2017. Í minnisblaðinu er lagt til að leikskólarnir loki sem hér segir:
Stöðvarfjarðarskóli
13.07-09.08 báðir dagar meðtaldir
Kæribær 13.07-09.08
Lyngholt 19.07-15.08
Dalborg 13.07-09.08
Eyrarvellir

29.06-26.07
Þá er athygli vakin á því að samkvæmt reglum um leikskóla í Fjarðabyggð geta foreldrar boðið börnum sínum upp á fjögurra, sex eða átta vikna samfellt sumarleyfi. Leikskólagjöld falla niður í einn mánuð, einn og hálfan mánuð eða tvo mánuði eftir lengd sumarleyfis. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu.
3.
Útboð á skólamáltíðum í grunnskólum 2017
Málsnúmer 1612093
Fræðslustjóri greindi fræðslunefnd frá vinnu við útboð á skólamáltíðum grunnskóla. Verið er að vinna útboðsgögn og gert ráð fyrir útboði í febrúar.
4.
Tilkynning um skil starfshóps um málefni Mentor og ný persónuverndarlöggjöf
Málsnúmer 1612031
Fyrir liggur bréf til allra sveitarfélaga vegna skila starfshóps sem falið var að fjalla um málefni Mentors, upplýsingakerfi fyrir leik- og grunnskóla, sem og nýrrar persónulöggjafar og skýrslu um skráningu upplýsinga um nemendur í mentor. Í bréfinu eru sveitarfélög hvött til að kynna sér leiðbeinandi vinnureglur sem starfshópurinn setur fram í skýrslunni og skólar hvattir til að útbúa vinnureglur í meðferð persónuupplýsinga í því upplýsingakerfi sem nýtt er. Grunnskólarnir í Fjarðabyggð nýta sér allir þjónustu Mentors. Í bréfinu kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir nýjum persónuverndarlögum árið 2018. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að fylgja málinu eftir með skólastjórum grunnskólanna.
5.
Reglur um leikskóla Fjarðabyggðar
Málsnúmer 1612121
Fyrir liggur tillaga um breytingu á reglum leikskóla til samræmis við samþykkta starfsáætlun og fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2017. Um er að ræða fjölda skipulagsdaga sem verða fimm í stað fjögurra og niðurfelling á 4 tíma afslætti á dag á vistunargjöldum fyrir elsta árgang leikskóla. Fræðslunefnd samþykkir tillöguna vísar henni til frekari umræðu og samþykktar bæjarráðs.
6.
Niðurstöður úr Skólavoginni
Málsnúmer 1311034
Farið var yfir niðurstöðu Fjarðabyggðar á samræmdum könnunarprófum í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk haustið 2016. Fræðslustjóri fór yfir hvernig unnið var með niðurstöður í hverjum skóla og skoðaðir styrkleikar og veikleikar. Brugðist var við í námi og kennslu svo ná mætti enn betri árangri en um leið var hugað að fjölbreytilegum kennsluháttum, góðum bekkjaranda og líðan nemenda, en allt þarf þetta að haldast í hendur. Þá var farið yfir rekstrartölur grunnskóla fyrir árið 2015.
7.
Bætt tónlistaraðstaða fyrir ungmenni
Málsnúmer 1701017
Máli um bætta tónlistaraðstöðu fyrir ungmenni var vísað frá sameiginlegum fundi bæjarstjórnar og ungmennaráðs til umfjöllunar í fræðslunefnd. Fulltrúi ungmennaráðs vildi kanna hvort auka mætti möguleika unglinga til að æfa sig á hljóðfæri í Fjarðabyggð og hvort efla megi tónlistarskólana t.d. með því að bjóða upp á kennslu á fleiri hljóðfæri. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að kanna hversu fjölbreytt hljóðfærakennslan er í tónlistarskólunum og einnig hversu mikið aðgengi nemendur hafi að æfingaaðstöðu í skólunum og félagsmiðstöðvum.
8.
Aukið fé til skóla og félagsmiðstöðva
Málsnúmer 1701031
Máli um aukið fé til skóla og félagsmiðstöðva með áherslu á geðheilbrigðismál var vísað frá sameiginlegum fundi bæjarstjórnar og ungmennaráðs til umfjöllunar í fræðslunefnd. Fulltrúi ungmennaráðs vildi kanna hvort auka mætti þjónustu við ungmenni sem glíma við geðræn vandamál. Mikil umræða átti sér stað um forvarnarmál og erindinu vísað til frekari umræðu innan fjölskyldusviðs með aukna fræðslu í huga.
9.
Ungt fólk í Fjarðabyggð, samningur um rannóknir á högum og líðan ungmenna
Málsnúmer 1701039
Fyrir liggur drög að samningi Fjarðabyggðar við Rannsóknir og greiningu um úrvinnslu úr rannsóknum á högum og líðan ungmenna í Fjarðabyggð. Samningurinn er í stórum dráttum líkur þeim samningi sem gilt hefur undanfarin 5 ár, en að þeim samningi komu auk fyrrgreindra aðila Háskóli Reykjavíkur og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Markmið úrvinnslunnar er að vinna hagnýtar upplýsingar í hendur forvarnarhópa og bæjaryfirvalda til stefnumótunar og áætlunargerðar í málefnum ungmenna í sveitarfélaginu, styrkja faglegan grundvöll stefnumótunar, auka virði samfélagsins gagnvart börnum og stuðla að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu. Nánari tilhögun er sem hér segir:
1) Ítarlegar skýrslur um hagi og líðan ungmenna (félagslegu þættirnir og víma) í grunnskólum meðal nemenda í 8. - 10. bekk verða unnar árin 2018 og 2020.
2)Vímuefnaneysla í efstu bekkjum grunnskóla ( 8. - 10. bekk) árin 2017, 2018, 2019 og 2020. Rannsóknarniðurstöður vímuefnakannananna verða í sama formi og áður og taka á vímuefnaneyslu ungmenna, reykingum, munn- og neftóbaksneyslu, áfengisneyslu og fíkniefnaneyslu.
3)Ítarlegar rannsóknir á högum og líðan ungmenna í 5. - 7. bekk verða unnar árin 2017 og 2019 og skýrslur gefnar út til Fjarðabyggðar í framhaldi.
Fræðslunefnd gerir ekki athugasemdir við drögin og fagnar því að áfram verði fylgst vel með högum og líðan ungmenna í Fjarðabyggð.