Fara í efni

Fræðslunefnd

71. fundur
5. júní 2019 kl. 16:30 - 17:30
í Molanum fundarherbergi 1 og 2
Nefndarmenn
Sigurður Ólafsson formaður
Sævar Örn Arngrímsson aðalmaður
Jóhanna Sigfúsdóttir aðalmaður
Þuríður Lillý Sigurðardóttir aðalmaður
Alma Sigurbjörnsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
Gerður Ósk Oddsdóttir áheyrnarfulltrúi
Bryndís Guðmundsdóttir áheyrnarfulltrúi
Þóroddur Helgason embættismaður
Ásta Ásgeirsdóttir embættismaður
Fundargerð ritaði:
Þóroddur Helgason Fræðslustjóri
Dagskrá
1.
Velferð barna - Unicef á íslandi
Málsnúmer 1905105
Vísað til kynningar í fræðslunefnd áskorun frá UNICEF á Íslandi. UNICEF hvetur öll sveitarfélög til að setja sér heildstætt og samræmt verklag, ef upp kemur grunur um ofbeldi og vanrækslu hjá stofnunum sem starfa með börnum. Fræðslunefnd tekur undir erindi UNICEF og vísar því til úrvinnslu sviðstjóra fjölskyldusviðs.
2.
Hvað höfum við gert?
Málsnúmer 1905163
Framleiðendur þáttaraðarinnar Hvað höfum við gert? sem framleidd er af Sagafilm fyrir Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og sýnd hefur verið á RÚV á vormánuðum, vilja gera sveitarfélögum kleift að gera sambærilegan samning og gerður var við Reykjavíkurborg um afnot af þáttaröðinni. Í bréfi frá framleiðendum kemur fram að þetta sé gert í ljósi mikilvægi þess að nemendur um land allt hafi aðgang að efninu, sem fjallar ítarlega um þær áskoranir sem mannkynið stendur frammi fyrir í loftslagsmálum. Samningurinn er um sýningarrétt næstu 7 árin á 10 þáttum sem RÚV sýndi í vetur. Fræðslustjóri hefur rætt við skólastjórnendur sem lýsa áhuga á gerð samnings. Fræðslunefnd felur fræðslustjóra að ganga frá samningi fyrir hönd sveitarfélagsins og halda kostnaði innan samþykkts fjárhagsramma til fræðslumála.
3.
Snemmtæk íhlutun í leikskólum
Málsnúmer 1810118
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, og Menntamálastofnun undirrituðu samstarfssamning 15. maí síðastliðinn um snemmtæka íhlutun og læsi í leikskóla. Verkefnið er í samræmi við læsisstefnu Fjarðabyggðar, Læsi er lykillinn, og Þjóðarsáttmála um læsi. Með samstarfsverkefninu mun Fjarðabyggð taka þátt í að efla málþroska og læsi barna auk þess að valdefla starfsfólk leikskólanna með aðferðum snemmtækrar íhlutunar.
Verkefnið fór af stað með námskeiði sem haldið var 15. maí fyrir tengiliði í hverjum leikskóla og kennsluráðgjöfum Skólaskrifstofu Austurlands. Föstudaginn 23.ágúst eftir hádegi verður haldið námskeið fyrir alla starfsmenn leikskólanna, en það kallar á breytingar á skóladagatölum skólanna. Fræðslunefnd samþykkir breytingu á skóladagatölum skólanna, þannig að hálfur skipulagsdagur verði í öllum leikskólum Fjarðabyggðar. Skipulagsdagar á skólaárinu verða þá fimm og hálfur dagur í stað fimm.
4.
Starfs- og fjárhagsáætlun fræðslunefndar 2020
Málsnúmer 1904133
Fræðslunefnd ræddi áherslur í starfs- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 og fól fræðslustjóra að senda tillögu að starfsáætlun og breytingum á þjónustu til fjármálasviðs byggðar á umræðu nefndarinnar.
5.
Breyting á skóladagatölum skólaárið 2019-2020
Málsnúmer 1906029
Borist hefur beiðni frá leikskólanum Lyngholti um að færa til skipulagsdag sem vera á þann 21. ágúst til 8. ágúst, þar sem verið er að taka í notkun nýja deild og starfsfólk þarf að tæma elsta hluta leikskólans. Foreldraráð skólans hefur samþykkt beiðnina fyrir sitt leyti. Fræðslunefnd samþykkir beiðnina.