Fara í efni

Fræðslunefnd

75. fundur
14. október 2019 kl. 16:30 - 19:00
í Molanum fundarherbergi 3
Nefndarmenn
Sigurður Ólafsson formaður
Birta Sæmundsdóttir aðalmaður
Sævar Örn Arngrímsson aðalmaður
Jóhanna Sigfúsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
Þóroddur Helgason embættismaður
Ásta Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Ásta Eggertsdóttir áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði:
Þóroddur Helgason Fræðslustjóri
Dagskrá
1.
Gjaldskrá skólamats í grunnskólum 2020
Málsnúmer 1909170
Fyrir liggur tillaga um gjaldakrá fyrir skólamáltíðir á árinu 2020. Fræðslunefnd leggur til óbreytta gjaldskrá.
Gjaldskrá vísað til bæjarráðs.
2.
Gjaldskrá tónlistarskóla 2020
Málsnúmer 1909175
Fyrir liggur tillaga um gjaldskrá fyrir tónlistarskóla 2020. Samkvæmt tillögunni hækkar gjaldskráin um 2,5%. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til bæjarráðs.
3.
Gjaldskrá leikskóla 2020
Málsnúmer 1909165
Fyrir liggur tillaga um gjaldakrá fyrir leikskóla 2020. Samkvæmt tillögunni hækkar gjaldskráin um 2,5%, fyrir utan hádegishressingu sem verður óbreytt. Enn fremur leggur fræðslunefnd til að foreldrar fái aukið svigrúm við töku sumarleyfis barna utan sumarlokunar leikskóla, þ.e. sumarleyfi barna þurfi ekki að vera samfellt, en þurfi að vera á tímabilinu frá 15. maí til 15. september. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til bæjarráðs.
4.
Gjaldskrá grunnskóla 2020
Málsnúmer 1909159
Fyrir liggur tillaga um gjaldakrá fyrir húsnæði grunnskóla 2020. Samkvæmt tillögunni hækkar gjaldskráin um 2,5%. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til bæjarráðs.
5.
Gjaldskrá skóladagheimila 2020
Málsnúmer 1909169
Fyrir liggur tillaga um gjaldakrá fyrir frístundaheimili 2020. Samkvæmt tillögunni hækkar gjaldskráin um 2,5%. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til bæjarráðs.
6.
Bréf frá leikskólastjórum á Austurlandi
Málsnúmer 1910069
Fyrir liggur bréf frá leikskólastjórum á Austurlandi sem sent er til allra sveitar- og bæjarstjórna á Austurlandi. Í bréfinu segir m.a. "Við leikskólastjórnendur á Austurlandi viljum lýsa yfir áhyggjum okkar á stöðu mála í leikskólum á öllu svæðinu. Fjöldi menntaðra leikskólakennara á svæðinu er langt undir ásættanlegum mörkum og það gengur erfiðlega að ráða íslenskumælandi starfsfólk en einnig er áberandi skortur á starfsfólki yfir höfuð. Víða hefur ekki tekist að fullmanna leikskólana." Í bréfinu er síðan farið yfir stöðuna í hverjum skóla og minnt á lög um leikskóla þar sem segir m.a. "Að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara." Þá er minnst á langan skóladag nemenda, allt að 9 klukkustundum á dag, og mikilvægi góðrar vinnuaðstöðu fyrir jafnt starfsmenn sem nemendur. Í bréfinu er einnig borin saman aðstaða í leik-, grunn- og framhaldsskólum í tengslum við eitt leyfisbréf kennara, en lög þess efnis taka gildi frá og með næstu áramótum. Í bréfinu er minnst á mikilvægi þess að jafna aðstöðuna og þar segir m.a. "Stórt skref í þessu væri ef ákveðið væri að allir skólar leik-, grunn- sem og framhaldsskólar væru lokaðir milli jóla og nýárs. Svona áform væru til þess fallin að skapa okkur fjölskylduvæna sérstöðu í þessum landshluta en einnig gera það enn meira aðlaðandi fyrir starfsfólk að vinna hjá okkur. Við höfum áhyggjur af því að þegar lög um eitt leyfisbréf taka gildi í janúar 2020 munu enn fleiri leikskólakennarar fara úr störfum í leikskólunum og yfir í grunnskólana." Bréfinu lýkur með þessum orðum: "Leikskólastigið er mikilvægur hlekkur í skólastarfi landsins og því miður erum við sem sinnum því starfi hér á Austurlandi farin að upplifa að okkar starf sé ekki metið að verðleikum. Vonandi verður það sýnt í verki á næstu vikum og mánuðum að þetta er röng ályktun hjá okkur. Það er því okkar ósk að sveitastjórnarmenn taki höndum saman og vinni með okkur leikskólastjórnendum að bættu náms- og starfsumhverfi yngstu bæjarbúa okkar."
Fræðslunefnd þakkar fyrir bréfið og tekur undir mikilvægi þess að nægilega margir leikskólakennarar starfi í leikskólunum og vinni þar við góðar aðstæður. Undanfarin ár hefur bæjarstjórn Fjarðabyggðar verið umhugað um að bæta vinnuaðstæður í leikskólum í Fjarðabyggð, má þar nefna nýlegan leikskóla á Fáskrúðsfirði, Kærabæ, nýjan leikskóla í Neskaupstað, Eyrarvelli, viðbyggingu við leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði, sem tekin verður í notkun á næsta ári, nýja leikskóladeild í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla sem tekin verður í gagnið á næsta ári og fyrirhugaða stækkun leikskólans Dalborgar á Eskifirði, sem stefnt er að á kjörtímabilinu. Unnið hefur verið að því að bæta hljóðvist í skólunum og reglum um námsstyrki til stofnana Fjarðabyggðar hefur verið breytt þannig að þeir starfsmenn Fjarðabyggðar sem stunda nám í leikskólakennarafræðum fá aukinn styrk. Í fyrirliggjandi starfsáætlun Fjarðabyggðar, sem nú er unnið að, er gert ráð fjölgun skipulagsdaga í sex úr fimm og auknum stöðugildum til leikskólanna í Fjarðabyggð til að styðja við lærdómssamfélagið innan skólans og snemmtæka íhlutun í læsi. Tillagan gerir ráð fyrir auknum undirbúningstíma starfsmanna inni á deild og færri börnum á starfsmann í elsta árgangi. Með þessu er verið að vinna samkvæmt áherslum í nýrri fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar og samningum um læsi. Þá mun fræðslunefnd taka til skoðunar lokun leikskóla milli jóla og nýárs. Vísað til bæjarráðs.
7.
Tvöföld skólavist
Málsnúmer 1910056
Til umræðu var Leiðbeinandi álit Sambands íslenskra sveitarfélaga um tvöfalda skólavist. Í álitinu er fjallað um rétt barna og foreldra með tilliti til gildandi laga. Í álitinu kemur fram það mat sambandsins að tvöföld leik- eða grunnskólavist barna samræmist ekki ákvæðum viðkomandi laga. Beiðnum frá forsjáraðilum um tvöfalda grunnskólagöngu barna hefur fjölgað á undanförnum misserum. Ráðleggur sambandið því öllum sveitarfélögum að hafna slíkum beiðnum. Embætti umboðsmanns barna tekur undir það sem fram kemur í álitinu um að rétt sé að miða við að foreldrar lagi sig að aðstæðum barns, til að tryggja því samfellu í daglegu lífi, öryggi og festu fremur en að barnið aðlagi sig að aðstæðum foreldranna. Fræðslunefnd frestar umræðu til næsta fundar.
8.
Sumarlokun leikskóla 2020
Málsnúmer 1910070
Fyrir liggur minnisblað um sumarlokun leikskóla. Í minnisblaðinu er í samræmi við starfsáætlun í fræðslumálum gert ráð fyrir fjögurra vikna sumarlokun eða 20 virkum dögum. þá kemur fram að sumarlokun leikskólanna verði stillt af þannig að sumarlokun leikskólanna fimm spanni í það minnsta tvo mánuði sumarsins. Lagt er til að sumarlokun leikskólanna sumarið 2020 verði þessi:

Eyrarvellir Norðfirði

18.06-15.07 báðir dagar meðtaldir
Dalborg Eskifirði


01.07-28.07 báðir dagar meðtaldir
Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóli
13.07-10.08 báðir dagar meðtaldir
Kæribær Fáskrúðsfirði

13.07-10.08 báðir dagar meðtaldir
Lyngholt Reyðarfirði


20.07-17.08 báðir dagar meðtaldir

Þá er athygli vakin á reglum um leikskóla í Fjarðabyggð, en samkvæmt þeim geta foreldrar boðið börnum sínum upp á fjögurra, sex eða átta vikna sumarleyfi. Leikskólagjöld falla niður í einn mánuð, einn og hálfan mánuð eða tvo mánuði eftir lengd sumarleyfis.
Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi tillögu, en mun jafnframt taka sumarlokun leikskóla 2021 til umræðu í vetur.
9.
Starfs- og fjárhagsáætlun fræðslunefndar 2020
Málsnúmer 1904133
Lokið er yfirferð á fjárhagsáætlun og lokið fundi formanns fræðslunefndar og fræðslustjóra með bæjarráði og bæjarstjóra. Fjárhagsáætlun nefndarinnar gerir ráð fyrir viðbótarfjármagni í fræðslurammann sem nemur 35 milljónum króna. Tvær ástæður vega þar þyngst á metunum, annars vegar er það hækkun launa umfram stöðugildafjölgun og hins vegar breyting á úthlutunarlíkani leikskóla svo efla megi faglegt starf í skólunum. Breytingarnar á úthlutunarlíkaninu eru þær að barngildi elsta árgangs er fært úr 0,8 í 1 og bætt er við einni klukkustund á viku til undirbúnings fyrir hvert stöðugildi á deild. Samtals nema þessar breytingar fjögurra stöðugilda fjölgun. Starfsáætlun fræðslunefndar tekur mið af áherslum í nýrri fræðslu- og frístundastefnu Fjarðabyggðar og gildandi fjölskyldustefnu. Í fræðslustofnunum kemur það m.a. fram í vinnu við eflingu lærdómssamfélagsins og innleiðingu Austurlandslíkansins. Einnig er áhersla á skapandi starf og eflingu verkgreina. Fræðslunefnd samþykkir fyrirliggjandi starfs- og fjárhagsáætlun og vísar henni til bæjarráðs.