Fara í efni

Hafnarstjórn

187. fundur
16. nóvember 2017 kl. 18:00 - 20:20
í fundarsal á bæjarskrifstofunum að Hafnargötu 2 á Reyðarfirði
Nefndarmenn
Sævar Guðjónsson Formaður
Pálína Margeirsdóttir Varaformaður
Ævar Ármannsson Aðalmaður
Eydís Ásbjörnsdóttir Aðalmaður
Kristín Ágústsdóttir Aðalmaður
Starfsmenn
Steinþór Pétursson Embættismaður
Fundargerð ritaði:
Steinþór Pétursson Framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna
Dagskrá
1.
Ráðning framkvæmdastjóra hafna
Málsnúmer 1709156
Málið var áður á dagskrá Hafnarstjórnar 26.sept sl. Skv. 65. gr. samþykktar um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar ræður bæjarráð starfsmenn í þær stjórnunarstöður sem heyra beint undir bæjarstjóra, samkvæmt skipuriti sveitarfélagsins, að fenginni tillögu bæjarstjóra og auk þess yfirmenn stofnana og fyrirtækja í eigu sveitarfélagsins sem heyra beint undir bæjarstjóra. Skv. 11 gr erindisbréfs hafnarstjórnar og 4 gr. hafnareglugerðar sem fjallar um ráðningar skal tillaga bæjarstjóra unnin í samráði við hafnarstjórn.

Bæjarstjóri fór yfir ráðningarferli framkvæmdastjóra hafna, faglegt mat og síðan þá tillögu sem unnið er að. Í símasambandi við fundinn er Jóna Björk Sigurjónsdóttir ráðgjafi hjá Capacent ráðningum sem fór yfir ráðningarferlið og mat á umsækjendum. Hafnarstjórn er sammála tillögu bæjarstjóra um ráðningu framkvæmdastjóra hafna en hún verður lögð fram á næsta fundi bæjarráðs.
2.
Fundargerðir Hafnasamband Íslands 2017
Málsnúmer 1701008
Fundargerð stjórar Hafnasambands Íslands nr. 398 dags. 25. október 2017 ásamt þeim hluta er lýtur að ástandi í hafnamálum úr skýrslu Samtaka iðnaðarins. Lögð fram til kynningar.
3.
Ábending frá Hafnasambandi Íslands vegna fyrirspurnar til nokkurra hafna um farþegagjöld
Málsnúmer 1711018
Erindi frá Hafnasambandi Íslands dags. 2.nóvember 2017 þar sem tekið er saman efni vegna fyrirspurnar SAF til nokkurra hafna um innheimtu farþegagjalda og hvað liggi að baki þeim. Í samantektinni kemur fram eftirfarandi:
"Öll gjaldtaka hafna skv. hafnalögum er ætlað að standa undir rekstri viðkomandi hafnar þ.m.t. fjármagnskostnaði, afskriftum, kostnaði við endurnýjun og stofnkostnaði skv. langtímaáætlun hafnarinnar sbr. 1. mgr. 17. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Um farþegagjald er fjallað í 2. tl. 2. mgr. 17. gr. laganna þar sem segir; ?Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu á aðstöðu og búnaði fyrir farþega og bifreiðar, sem og kostnaði við rekstur og viðhald?. Í greinargerð með frumvarpi, því sem varð að hafnarlögum, segir um gjaldið:
"Nýmæli í frumvarpinu er farþegagjald. Ljóst er að hafnarsjóðir hafa lagt í töluverðan kostnað til þess að taka á móti farþegum af skemmtiferðaskipum, ferjum og skemmtiferða- eða útsýnisbátum ýmiss konar sem þjónusta ferðamenn. Þessi kostnaður felst í umsýslu skipanna, sérbúnaði, svo sem flotbryggjum og landgöngum, svo og aðstöðu fyrir þau sem ekki nýtist í annað. Rökrétt er að heimila gjaldtöku fyrir þessa þjónustu hafna. Gjaldtökuheimildir kaflans ná til sömu rekstrarþátta og starfsheimildir hafnarinnar."
Því er ljóst að með lögunum var m.a. ætlað að heimila gjaldtöku vegna eldri framkvæmda og aðstöðu í höfnum, en augljóst er að umferð ökutækja og farþega á landi hafna hefur í för með sér kostnað við viðhald mannvirkja á landi og sjó, þrif auk ýmis konar umsýslu og eftirlits vegna starfseminnar, sem er í raun sameiginlegur kostnaður notenda í atvinnurekstri. Eftir tilkomu hafntengdrar ferðaþjónustu hefur einnig komið til framkvæmda er tengist þeirri þjónustu sérstaklega; afmörkunar svæða, söluaðstaða og umhverfisbætur á landi sem augljóst er að verður ekki fjármagnað nema með eðlilegu gjaldi af slíkri starfsemi.
Erindið kynnt.
4.
Aðalfundur SSA 2017
Málsnúmer 1605076
Lagðar fram til kynningar álygtanir frá aðalfundi SSA sem haldinn var á Breiðdalsvík dagana 29. og 30. september 2017.
5.
Aðalfundarboð 2017 - Ársreikningur 2016
Málsnúmer 1710093
Fundargerð aðalfundar Fiskmarkaðar Austurlands sem haldinn var fimmtudaginn 26. október 2017 í húsnæði Fiskmarkaðarins á Eskifirði. Lögð fram til kynningar ásamt ársreikningi ársins 2016.
6.
Umsókn um undanþágu frá lóðsskyldu fyrir Sergey Balashevich skipstjóra á Mv Marmaui
Málsnúmer 1710162
Erindi frá Thor Shipping ehf dags. 27. október 2017 þar sem óskað er eftir undanþágu frá hafnsöguskyldu að og frá Mjóeyrarhöfn fyrir Sergey Balashevich skipstjóra á Mv. Marmaui.
Hafnarstjórn staðfestir undanþágu frá hafnsögu fyrir Sergey Balashevich skipstjóra á Marmaui.
7.
Umsókn um skammtímaafnot af landi við Mjóeyrarhöfn vormánuði 2018
Málsnúmer 1711023
Erindi frá Löxum fiskeldi dags. 2. nóvember 2017 þar sem óskað er eftir að fá afnot af lóðinni sem þeir fengu afnot af síðastliðið vor til samsetningar sjókvía á vormánuðum 2018. Um er að ræða tímabilið mánaðarmót febrúar/mars og fram yfir miðjan apríl.
Hafnarstjórn felur framkvæmdastjóra að ganga frá samkomulagi við fyrirtækið líkt og síðastliðið vor.
8.
730 Mjóeyrarhöfn - umsókn um stöðuleyfi, starfsmannaaðstaða Eimskips
Málsnúmer 1710105
Með erindi dags. 16. október 2017 sækir Eimskip um endurnýjun stöðuleyfis fyrir starfsmannaaðstöðu á Mjóeyrarhöfn. Í svari Eigna- skipulags og umhverfisnefndar er samþykkt endurútgáfa stöðuleyfis en því jafnframt beint til hafnarstjórnar að ganga í þá vinnu að skipuleggja í samráði við hagsmunaaðila á svæðinu framtíðarlausn að aðstöðu fyrir starfsmenn á hafnarsvæðinu við Mjóeyrarhöfn.
9.
750 Bygging hafnarkants við frystigeymslu á Fáskrúðsfirði
Málsnúmer 1505078
Erindi frá Lögfræðistofu Reykjavíkur dags. 30. október 2017 vegna verksins Strandarbryggja á Fáskrúðsfirði. Framkvæmdastjóri fór yfir málið, en fyrir fundinum láu drög að svari til lögfræðistofunnar.
Hafnarstjórn felur framkvæmdastjóra að svara erindinu.
10.
Tilkynning um fyrirhugaða 4.000 tonna laxeldisstöð Laxar fiskeldis ehf. í sjókvíum í Fáskrúðfirði
Málsnúmer 1201079
Erindi frá Löxum fiskeldi ehf dags. 3. nóvember 2017 þar sem vakin er athygli á að matsáætlun vegna laxeldis í Fáskrúðsfirði verði aðgengileg á heimasíðu Laxa frá 7. nóvember 2017 og að frestur til að skila athugasemdum til fyrirtækisins sé til 21. nóvember 2017.
Hafnarstjórn leggur til óskað verði eftir fundi með báðum fiskeldisfyrirtækjunum sem hyggja á eldi í Fáskrúðsfirði.
11.
Fyrirspurn um heimild til að afhenda rannsóknarskýrslur
Málsnúmer 1711082
Undir þessum lið vék Kristín Ágústsdóttir af fundi. Erindi frá Náttúrustofu Austurlands þar sem óskað var eftir heimild til að afhenda Ævar Pedersen fuglafræðingi skýrslurnar, Rannsóknir á lífríki Viðfjarðar og Rannsóknir á lífríki Hellisfjarðar.
Hafnarstjórn samþykkir framangreinda heimild, með því skilyrði að viðtakandi dreifi þeim ekki frekar.
12.
Gjaldskrá Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar 2018
Málsnúmer 1706041
Fyrir fundinum liggur endurskoðuð gjaldskrá Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar vegna ársins 2018 og er hækkun samsvarandi hækkun byggingavísitölu síðustu 12 mánaða frá október til október.
Athugasemd hefur verið gerð við fyrirkomulag innheimtu úrgangsgjalda hjá höfnum landsins af hálfu eftilitsstofnunar Evrópusambandsins og liggur fyrir að breyta þarf því fyrri áramót. Unnið er að því í samráði við Umhverfisstofnun að finna innheimtufyrirkomulag sem eftirlitsaðila Evrópusambandsins geta samþykkt. Hafnarstjórn samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá eins og hún liggur fyrir, en þó með þeim fyrirvara að gjald vegna úrgangsgjalda verði lagað fyrr komandi áramót. Ný gjaldskrá tekur gildi 1. janúar 2018.