Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir verulegum áhyggjum af auknum og síendurteknum bikblæðingum á þjóðvegi 1 um firðina og Fagradal. Fyrir jól urðu talsverðar bikblæðingar á Suðurfjarðarvegi og má víða sjá sár í slitlagi þar sem umferð hefur rifið upp heilu malbiksbútana. Malbiksklessur liggja því víða á veginum og ástandið hefur versnað eftir því sem liðið hefur á.
Auknar bikblæðingar valda tjóni á bifreiðum, hafa neikvæð áhrif á öryggi vegfarenda og valda íbúum og atvinnulífi vandræðum er þau sækja vinnu, skóla og þjónustu milli byggðarkjarna ásamt þungaflutningum. Ástand Suðurfjarðarvegar er sérstakt áhyggjuefni en hann er ein af lífæðum atvinnulífs og þjónustu á Austurlandi.

Bæjarráð leggur ríka áherslu á að tryggt verði aukið öryggi á Suðurfjarðarvegi og að gripið verði tafarlaust til viðeigandi úrbóta. Jafnframt er bent á brýna nauðsyn þess að Suðurfjarðarvegur verði færður framar í samgönguáætlun og að hafist verði handa við fyrsta áfanga framkvæmda strax á næsta ári og einnig að Vegagerðinni verði gert kleift að gera bundið slitlag með betri hætti þannig að bikblæðingar hætti.

Suðurfjarðarvegur er þjóðhagslega mikilvægur vegkafli sem tengir landið við stærstu fiskihafnir landsins og eina stærstu vöruútflutningshöfn Íslands. Þungatakmarkanir og lakara ástand vegarins hafa því bein áhrif á verðmætasköpun og gera atvinnulífinu verulega erfitt fyrir ásamt því að valda íbúum vandræðum í daglegum erindum.

