Í ár fóru átta unglingar frá Fjarðabyggð á landsmótið sem var haldið helgina 4.- 6. október, þar sem þau skemmtu sér vel og kynntust öðrum unglingum, en um 380 ungmenni allstaðar af landinu voru samankomin. Fanney Ósk Sveinbjörnsdóttir bauð sig fram í ungmennaráð Samfés og var kosin til eins árs. Valgeir Elís Hafþórsson var kosin til tveggja ára í fyrra og á því eitt ár eftir í ungmennaráði. Valgeir stóð sig með prýði við skipulaggningu landsmótsins ásamt öðrum meðlimum ráðsins. Hann flutti einnig tvö lög á sviði á ballinu sem haldið var á laugardagskvöldið þar sem mikil fagnaðarlæti fylgdu. Fanney Ósk og Valgeir koma bæði úr Nesskóla.
Dagskrá landsmóts Samfés er þríþætt. Unnið er í fjölbreyttum smiðjum þar sem markmiðið er að ungmennin taki það sem þau læra með sér heim og miðli reynslu sinni og þekkingu í félagsmiðstöðina sína. Auk þess er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér á heilbrigðan máta.
Lýðræðisleg vinnubrögð eru allsráðandi á landsmóti Samfés en lokadagur mótsins er helgaður landsþingi ungs fólks. Það er ungmennaráð Samfés sem hefur veg og vanda að skipulagningu. Á landsþinginu fær ungt fólk tækifæri til að tjá sig um hin ýmsu málefni sem er þeim hugleikinn. Í ár ræddu ungmenni um fordóma, ofbeldi, efnishyggju, andlega heilsu og heilsu almennt, menntamál félagsmiðstöðvar og ungmennahús. Í kjölfar landsþings tekur ungmennaráð saman niðurstöður og sendir ályktanir á ráðuneyti, sveitarstjórnir, fjölmiðla og aðildarfélaga Samfés.