mobile navigation trigger mobile search trigger
06.02.2017

Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki

Lítil líkamsræktaraðstaða var formlega opnuð í þjónustuíbúðunum Breiðabliki í Neskaupstað á föstudag.

Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki
Tækin prófuð formlega.

Frumkvæði kom frá íbúum að það vantaði slíka aðstöðu. Sendu þeir félagsmálanefnd bréf þar sem lagt var til að tómstundaherbergi yrði betur nýtt með því að koma þar upp líkamsræktartækjum. Voru rökin þau að margir íbúanna gætu ekki stundað útihreyfingu yfir veturinn. Varð úr að málið var samþykkt af félagsmálanefnd og síðar bæjarráði. Leituðu íbúarnir til SÚN varðandi styrk til kaupanna. Styrkurinn var veittur og nýlega komu tækin, hlaupabretti og þrekhjól.

Á föstudag var loks vígsla tækjanna. Komu frá SÚN, Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri, Magnús Jóhannsson, stjórnarformaður og Smári Geirsson, aðalritari og afhentu íbúum tækin formlega. Fyrst var farið niður í herbergið sem gárungar voru farnir að nefna Kroppakjör. Þar voru tækin afhent Má Sveinssyni, sem var í forsvari fyrir íbúana og síðan voru þau prófuð.

Að því loknu var farið upp í setustofu þar sem ræðuhöld voru. Talaði Guðmundur fyrir hönd SÚN þar sem hann ræddi aðkomu félagsins að verkefninu. Helga Elísabet Guðlaugsdóttir, deildarstjóri búsetuþjónustu hjá Fjarðabyggð ræddi aðkomu sína að verkefninu, hrósaði íbúum fyrir frumkvæðið og flutti stöku í lokin sem vakti mikla kátínu. Að síðustu flutti Már ræðu fyrir hönd íbúanna en hann hafði borið hitann og þungann af verkefninu. Í ræðunni þakkaði hann SÚN og Helgu fyrir alla aðstoðina og stuðninginn varðandi verkefnið.

Þá var notið veitinga en íbúar höfðu staðið við bakstur á kleinum og pönnukökum allan morguninn. Allir íbúarnir komu saman í setustofunni meðan á athöfninni stóð. Hún var hin hátíðlegasta og samstaða og gleði íbúanna yfir aðstöðunni skein í gegn.

Fleiri myndir:
Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki
Már, Guðmundur, Smári og Magnús í líkamsræktinni.
Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki
Allir íbúarnir voru samankomnir að halda upp á afhendinguna.
Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki
Helga Elísabet flytur ræðu
Ný líkamsræktaraðstaða í Breiðabliki
Líkamsræktin skoðuð

Frétta og viðburðayfirlit