Fara í efni
15.09.2025 Fréttir

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar heimsótti Fljótsdalshrepp

Deildu

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ásamt bæjarstjóra og starfsmönnum heimsótti Fljótsdalshrepp föstudaginn 29. ágúst síðastliðin. Heimsóknin er hluti af reglubundnum heimsóknum sveitarfélaganna, en síðast heimsótti sveitarstjórn Fljótsdalshrepps Fjarðabyggð í júní á síðasta ári. 

Fundurinn var haldinn í Snæfellsstofu þar sem rædd voru sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna. Sveitarfélögin samþykktu á fundinum sameiginlega ályktun þar sem Alþingi er hvatt til að ljúka afgreiðslu lykilmála í orkumálum sem eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar á Austurlandi. Sérstaklega var skorað á þingið að samþykkja stefnu um uppbyggingu vindorku á Íslandi, tryggja sveitarfélögum eðlilegt afgjald af raforkuframleiðslu og skapa skýrt lagaumhverfi fyrir fyrirhugaðan orkugarð á Austurlandi, þar á meðal vetnisframleiðslu fyrir skipaflota. Sveitarfélögin benda á að aukin orkuöflun sé lykilforsenda verðmætasköpunar og uppbyggingar, m.a. fyrir þróun græns orkugarðs í Fljótsdal og á Reyðarfirði og orkuskipti í atvinnulífi.

Jafnframt var rætt um samvinnu sveitarfélaganna um húsnæðisuppbyggingu og innviði. Fljótsdalshreppur hefur þegar hafið vinnu við byggðakjarna í Hamborg og Fjarðabyggð vinnur að fjölgun lóða og húsnæðis til íbúða og atvinnusköpunar. Bæði svæðin teljast að meginstefnu til kaldra svæða og munu sveitarfélögin vinna saman að hagkvæmum orkulausnum fyrir íbúa og fyrirtæki. Jafnframt verður kannað sérstaklega hvort samlegðaráhrif í hönnun innviða geti leitt til hraðari og hagkvæmari uppbyggingar á báðum stöðum.

Eftir fundinn hélt hópurinn í vettvangsferð þar sem meðal annars var kynning á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, skoðunarferð um nýjan byggðakjarna í Hamborg, heimsókn í Víðivallaskóg og kynning á skógarafurðum og vinnslu úr íslenskum viði.

Heimsókninni lauk með kvöldverði við Hengifoss þar sem Sara Káradóttir bauð upp á austfirskar kræsingar úr Fljótsdal.