Haldin nú í áttunda skiptið er menningarhátíð BRAS. Markmið hátíðarinnar er að tryggja aðgengi og þátttöku barna og ungmenna á Austurlandi að list- og menningarviðburðum í heimabyggð.
Nú um helgina fóru fjölmargir viðburðir fram á Austurlandi og þar á meðal í Fjarðabyggð.

Á laugardaginn kom rithöfundurinn Viktoría Blöndal. Hún kenndi ungmennum leiðir til að efla krafta sína í ritlist. Þar voru skapaðar persónur, söguþræðir og umhverfi í ævintýralega húsinu sem Sköpunarmiðstöðin er í hinum sköpunarglaða Stöðvarfirði.
Á sunnudaginn kom danshópurinn Dans Afríka til Reyðarfjarðar og bauð þar upp á tvenns konar skemmtun. Annarsvegar var börnum 10 ára og yngri boðið ásamt forráðamönnum sínum upp á kennslu í dansi og ógleymanlegri samveru þar sem allir þátttakendur fundu sinni innri takt við tóna trommutónlistarinnar. Hins vegar var opið fyrir alla að koma og sjá sýningu þar sem hópurinn sýndi gestum afríska dansa, tónlist og leiki.
Nóg er í boði framundan og engan þarf að skorta menningarlegar upplifanir.

Fjarðabyggð leggur sérstaka áherslu á 7. – 10. bekk í ár og eru tvær smiðjur á vegum Menningarstofu eftir sem ungmenni skrá sig í sjálf. Í annarri viku í október fáum við síðan til okkur listakonuna Evu Ísleifs sem heimsækir skólana á skólatíma og kennir þeim sjálfbærar leiðir til þess að endurvinna og endurgera flíkur undir heitinu REPÜP.
Frekari upplýsingar um viðburði má finna á facebook síðu BRAS: https://www.facebook.com/BRASAusturland