Umsögnin um Daða Þór var svohljóðandi: Frjálsíþróttakappinn Daði Þór Jóhannsson er gríðarlega öflugur alhliða frjálsíþróttamaður en hann finnur sig best í stökkgreinum. Í byrjun júní náði Daði þeim frábæra árangri að verða Íslandsmeistari í hástökki í undir 22 ára flokki, þar sem Daði stökk yfir 1,72 metra. Á sama móti varð Daði svo í öðru sæti í langstökki og í þrístökki. En í öllum greinum bætti hann sinn besta árangur. Seinna í sama mánuði var Daði svo mættur til Gautaborgar þar sem hann tók þátt á Gautaborgarleikunum þar sem hann bætti sinn fyrri árangur í hástökki og stökk þá yfir 1,80. Til að nefna nokkur önnur afrek á árinu og fjölbreyttni Daða sem íþróttamanns þá varð Daði í fyrsta sæti í spjótkasti, kringlukasti, kúluvarpi, 80 og 800 metra hlaupum á mótum hér fyrir austan. Auk þess varð hann í öðru sæti á Akureyrarmóti UFA í 600 metra hlaupi. Daði er mikil fyrirmynd, duglegur, samviskusamur og fylginn sér.
Aðrir sem tilnefndir voru til íþróttamanns Fjarðabyggðar 2019:
Alexandra Ýr Ingvarsdóttir - Skíðafélag Fjarðabyggðar
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson - Ungmennafélaginu Val
Bergdís Steinþórsdóttir - Brettafélagi Fjarðabyggðar
Galdur Máni Davíðsson - Íþróttafélaginu Þrótti
Guðmundur Arnar Hjálmarsson - Ungmennafélaginu Leikni
Guðbjörg Oddfríður Friðjónsdóttir - Hestamannafélaginu Blæ
Jakob Kristjánsson - Skíðafélagi Fjarðabyggðar
Jóhanna Lind Stefánsdóttir - Íþróttafélaginu Þrótti
Tómas Atli Björgvinsson - Ungmennafélaginu Austra
Auk þess að heiðra ofantalda voru veittar viðurkenningar til þeirra einstaklinga sem hafa tekið þátt í landsliðsverkefnum á árinu.
Við óskum Daða Þór og öðrum afreksíþróttamönnum í Fjarðabyggð til hamingju með viðurkenningarnar og óskum þeim velfarnaðar á nýju ári.