Fjarðabyggð og Krabbameinsfélag Austfjarða hafa undirritað samning sem tryggir einstaklingum sem greinst hafa með krabbamein gjaldfrjálsan aðgang að sundlaugum og líkamsrækt á vegum sveitarfélagsins. Markmið samningsins er að styðja við einstaklinga sem glíma við krabbamein, efla forvarnir og stuðla að bættri heilsu og lífsgæðum íbúa sveitarfélagsins.

Samningurinn, sem gildir út árið 2026, byggir á sameiginlegri sýn að heilbrigður lífsstíll og virk þátttaka í hreyfingu sé mikilvægur þáttur í bataferli og forvörnum. Með þessu framtaki vill sveitarfélagið leggja sitt af mörkum til að auðvelda einstaklingum sem glíma við erfið veikindi að stíga fyrstu skrefin í átt að bata og bættri heilsu.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir samninginn gott dæmi um það samfélagslega hlutverk sem sveitarfélagið gegnir:
„Við leggjum mikla áherslu á að Fjarðabyggð sé heilbrigt og mannlegt samfélag sem styður íbúa sína til að hlúa að líkama og sál. Með þessu samstarfi erum við að styðja fólk sem greinst hefur með krabbamein að efla heilsu sína og vellíðan."
Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar, bendir á að verkefnið sé liður í stærra markmiði sveitarfélagsins um heilsueflandi samfélag:
„Við viljum skapa umhverfi sem hvetur til hreyfingar og vellíðunar, og þetta er dæmi um hvernig samstarf og samstaða geta skilað raunverulegum árangri fyrir einstaklinga sem þurfa á stuðningi að halda.“
Frá Krabbameinsfélagi Austfjarða fagnar Hrefna Eyþórsdóttir samstarfinu og segir það skipta miklu máli fyrir félagsmenn:
„Þetta skref sýnir samhug og skilning á aðstæðum þeirra sem greinast með krabbamein. Hreyfing og aðgengi að sundi og líkamsrækt getur verið ómetanlegur þáttur í líkamlegum og andlegum bata.“
Samningurinn er liður í áframhaldandi forvarnarstarfi Fjarðabyggðar og Krabbameinsfélags Austfjarða, þar sem lögð er áhersla á að efla vitund, stuðla að heilsueflingu og skapa jákvæð samfélagsleg áhrif sem ná til allra íbúa sveitarfélagsins.
