Fara í efni
04.11.2016 Fréttir

Framkvæmdir við ferðamannastaði

Deildu

Framkvæmdir við Helgustaðarnámu fela m.a. í sér aðstöðuhús, endurbætur á göngustíg og stækkun á bílastæði, auk þess sem aðkoma að staðnum hefur verið lagfærð. Framkvæmdir hafa staðið yfir um nokkurt skeið og voru orðnar aðkallandi m.t.t. öryggi gesta og verndar viðkvæmrar náttúru staðarins.

Á Hólmanesinu er verið að vinna að tengingum stígakerfis frá strandlengjunni og upp að áningarstaðnum á hálsinum. Samhliða hefur verið unnið að nýjum áningarstað Eskifjarðarmegin sem einnig má nýta til útikennslu eða fræðslu. Hólmanesið hefur, sem kunnugt er, að geyma bæði merka sögu og fagra náttúru, auk þess sem finna má sjaldgæfar jurtir á svæðinu, s.s. hvítt afbrigði af bláklukku og klettafrú. Báðar jurtir eru á meðal einkennisjurta Austurlands.

Þá er verið að vinna að deiliskipulagi fyrir sjávarhverinn Söxu í Stöðvarfirði, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta vor sem miða að því að auðvelda aðgengi að þessu merka náttúruvætti og jafnframt að verja það gegn ágangi.

Síðast en ekki síst stendur einnig yfir hönnunarvinna og undirbúningur á deiliskipulagi fyrir Fólkvanginn í Neskaupstað. Settur hefur verið á fót ráðgefandi faghópur, sem hefur á að skipa haghafa á svæðinu.