Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir hér með skýrri stefnu og vilja sveitarfélagsins um uppbyggingu og eflingu þjónustu við eldri borgara. Um er að ræða metnaðarfulla framtíðarsýn sem felur í sér fjölgun hjúkrunarrýma, eflingu dagdvalarþjónustu og markvissa uppbyggingu húsnæðis, í nánu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Þetta er viljayfirlýsing sveitarfélagsins og liður í virku samtali við stjórnvöld um að ná þessum markmiðum fram.
Sveitarfélagið hefur unnið að þessum málum af festu um nokkurt skeið. Samtal Fjarðabyggðar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) hófst formlega árið 2023 með sameiginlegri umsókn í þróunarverkefnið Gott að eldast. Síðan þá hafa farið fram tugir funda, vinnustofur með ráðuneytum, opnir kynningarfundir í samfélaginu og ítarleg greining á þjónustuþörf. Þetta er því ekki verið að ganga frá framkvæmdum, heldur að móta sameiginlega og vel rökstudda stefnu sem sveitarfélagið vill vinna eftir og berst fyrir gagnvart ríkinu.
Í viljayfirlýsingu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Fjarðabyggðar, sem undirrituð var fyrir áramót, var kveðið á um greiningu á húsnæðisþörf 60+ aldurshópsins. Sú greining liggur nú fyrir og verður kynnt fyrir byggingarverktökum og er aðgengileg á vef sveitarfélagsins. Niðurstöðurnar sýna skýrt að þörf er á fjölbreyttu, aðgengilegu og hagkvæmu húsnæði fyrir eldra fólk til framtíðar.
Breiðablik – framtíðarsýn byggð á öryggi og samfellu þjónustu
Bæjarráð leggur áherslu á að efla Breiðablik til framtíðar, með hag núverandi íbúa að leiðarljósi. Þar er horft til mögulegrar aðlögunar húsnæðis að breyttum þjónustuþörfum og einnig til breytinga á eignarhaldi, ef slíkt reynist farsæl leið til að styrkja rekstrargrundvöll og skapa svigrúm til framtíðaruppbyggingar.
Áréttað er með skýrum hætti að engar breytingar eru fyrirhugaðar fyrir núverandi íbúa Breiðabliks. Allar breytingar eru hugsaðar til framtíðar, unnar í áföngum og í takt við hækkandi lífaldur og breyttar þarfir íbúanna. Markmiðið er að þjónustan þróist með fólkinu, en ekki að fólk þurfi að laga sig að kerfinu.
Með þessari sýn er stefnt að því að bæta þjónustu, öryggi og aðbúnað til lengri tíma, meðal annars með möguleikum á meiri þjónustu og hjúkrun innan sama húsnæðis ef og þegar þörf skapast. Slík nálgun styður við samfellu í þjónustu, eykur öryggistilfinningu og bætir lífsgæði.
Í því samhengi er horft til samstarfs við óhagnaðardrifið leigufélag, Bríet, í eigu opinberra aðila, sem mögulegan samstarfsaðila til framtíðar, enda byggir slíkt fyrirkomulag á félagslegum, ábyrgum og langtímamiðuðum forsendum. Jafnframt stendur til að vinna nánari greiningu á lóð og húsnæði Breiðabliks með tilliti til mögulegrar stækkunar síðar, fyrst og fremst til að mæta fyrirsjáanlegri þörf og draga úr biðlistum – án þess að raska núverandi búsetu eða þjónustu. Sökum þessara vinnu hefur Fjarðabyggð ekki úthlutað íbúðum í Breiðablik nýverið og þess vegna leggur sveitarfélagið ríka áherslu á að svör frá ráðuneytinu liggi fyrir sem allra fyrst.
Hulduhlíð – vilji til fjölgunar hjúkrunarrýma
Bæjarráð lýsir einnig skýrum vilja til verulegrar stækkunar Hulduhlíðar á Eskifirði. Núverandi húsnæði býður aðeins upp á mjög takmarkaða stækkun og því er unnið, í samtali við HSA og Heilbrigðisráðuneytið, að því að skoða deiliskipulagsbreytingar og aðrar leiðir sem gera kleift að fjölga hjúkrunarrýmum, bæta rýmiskosti og styrkja starfsaðstöðu til framtíðar. Þetta er lykilforsenda þess að mæta vaxandi þörf og vinna markvisst niður biðlista.
Uppsalir – betri nýting fyrir framtíðina
Á sama tíma er vilji til að ráðast í endurbætur á Uppsölum í Fáskrúðsfirði, með það að markmiði að nýta betur eldri hluta húsnæðisins. Með slíkum endurbótum væri hægt að ná fram betri nýtingu og styrkja Uppsali sem fullbúið hjúkrunarheimili til framtíðar, í samvinnu við HSA og heilbrigðisyfirvöld.
Dagdvalarþjónusta – lykilþáttur í heildstæðri lausn
Samhliða fjölgun hjúkrunarrýma leggur bæjarráð ríka áherslu á uppbyggingu dagdvalarþjónustu í samvinnu við HSA í gegnum verkefnið Gott að eldast. Dagdvöl er þjónusta þar sem eldri borgarar koma yfir daginn, fá félagslegan stuðning, hreyfingu, máltíðir og umönnun, en búa áfram heima. Slík þjónusta eykur lífsgæði, dregur úr einangrun, styður sjálfstæða búsetu lengur og getur frestað eða komið í stað dvalar á hjúkrunarheimili. Greining á umfangi, staðsetningu og eftirspurn dagdvalarþjónustu er hluti af þeirri stefnumótun sem nú stendur yfir.
Skýr vilji og barátta fyrir framtíðinni
Bæjarráð Fjarðabyggðar leggur áherslu á að hér er um að ræða skýra stefnu og vilja sveitarfélagsins, byggða á faglegri greiningu og raunverulegri þörf. Þetta er ekki lokaniðurstaða heldur viljayfirlýsing og barátta sveitarfélagsins gagnvart stjórnvöldum um að ná fram þeirri uppbyggingu sem eldri borgarar í Fjarðabyggð eiga rétt á.
Þetta er framtíðarsýn sem miðar að öryggi, reisn og mannsæmandi aðbúnaði og mikilvægt skref til framtíðar.
Oddvitar allra framboða í Fjarðabyggð
