Fara í efni
30.09.2025 Fréttir

Fulltrúar Fjarðabyggðar tóku þátt í Íslendingadögum í Gravelines

Deildu

Um síðstliðna helgi fóru fram árlegir Íslendingadagar í Gravelines í Frakklandi, þar sem fjölbreytt dagskrá var í boði til að heiðra tengslin milli Fáskrúðsfjarðar og íbúa Gravelines. 

Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs, Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, ásamt eiginmanni sínum Sigurði Ólafssyni fóru fyrir hönd sveitarfélagsin og María Ósk Snædal, fulltrúi franskra daga á Fáskrúðsfirði, og maður hennar Steinn Björgvin Jónasson.

Hátíðin stóð yfir dagana 26.–29. september og einkenndist af fjölbreyttri dagskrá. Meðal dagskrárliða var opnun sýningarinnar Peril at Sea, en hún fjallar um tengsl manna og sjávar í gegnum aldirnar, og potluck-kvöldverður með ávörpum á föstudeginum, en þar koma gestir með veitingar frá sínum löndum. Að þessu sinni var boðið uppá hákarl, harðfisk og brennivín ásamt íslensku súkkulaði. 

Á laugardeginum heimsóttu gestir bókasafn bæjarins, skoðuðu kjarnorkuverið í Gravelines og tóku þátt í siglingu og var blómsveig varpað í sjóinn til minningar um látna sjómenn. Um kvöldið var haldinn hátíðarkvöldverður með gestgjöfunum.

Á sunnudeginum fór fram guðsþjónusta í kirkju heilags Tómasar Becket, skrúðganga að Calvaire des marins (sjómannakrossinum) þar sem lagður var blómsveigur, auk  skrúðgöng en þar bar að líta risavaxnar dúkkur. 

Hátíðinni lauk með sameiginlegum hátíðarmat, Banquet des Islandais, sem félagið Les Zigomards stóð fyrir. 

Þátttaka fulltrúa Fjarðabyggðar undirstrikar mikilvægi tengslanna milli Fáskrúðsfjarðar og Gravelines, sem eiga sér langa sögu og endurspeglast hún í þessari árlegu hátíð.