Fara í efni
06.11.2025 Fjármál, Fréttir

Fyrri umræða um frumvarp að fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2026

Deildu

Miðvikidaginn 5. nóvember fór fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 og þriggja ára áætlun til 2029.  

Líkt og venja er samanstendur tillagan af tölulegri umfjöllun um annars vegar A-hluta bæjarsjóðs og hins vegar A- og B-hluta samstæðu, ásamt greinargerð. Í A-hluta er aðalsjóður og eignasjóðir, en í B-hluta eru veitustofnanir auk hafnarsjóðs, félagslegra íbúða og sorpstöðvar. Áætlunin er sett fram sameinuð í eina heild fyrir komandi ár og næstu þrjú ár, auk ítarlegra upplýsinga um fjölbreyttan rekstur sveitarfélagsins.

Tekjur og gjöld

Heildartekjur samstæðu A- og B-hluta á árinu 2026 eru áætlaðar um 12,2 milljarða króna, Í A-hluta eru heildartekjur áætlaðar um 9,8 milljarða króna.
Heildarrekstrargjöld samstæðunnar eru áætluð um 11 milljarðar króna, þar af laun og launatengd gjöld um 6,8 milljarða króna og annar rekstrarkostnaður um 3,5 milljarða króna.

Rekstrarafgangur og fjármagnsliðir

Rekstrarafgangur samstæðu fyrir fjármagnsliði er áætlaður um 1,1 milljarður króna, en í A-hluta um 587 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða er áætlaður rekstrarafgangur samstæðunnar um 793 milljónir króna og í A-hluta um 262 milljónir króna.

Skuldir og skuldbindingar

Skuldir og skuldbindingar í árslok 2026 eru áætlaðar um 10,5 milljarða króna hjá samstæðu A- og B-hluta og um 12 milljarða króna hjá A-hluta. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar um 3,8 milljarða króna og langtímaskuldir við lánastofnanir um 4,8 milljarða króna í samstæðu.

Sjóðstreymi og fjárfestingar

Handbært fé frá rekstri í samstæðu er áætlað um 1,6 milljarða króna árið 2026. Afborganir langtímalána eru áætlaðar um 476 milljónir króna og fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru áætlaðar um 1,1 milljarður króna.

Framlegðarhlutfall og skuldaviðmið

Framlegðarhlutfall (EBITDA) er áætlað um 15% í samstæðu og 9,3% í A-hluta. Skuldaviðmið samstæðu er áætlað að verði á árinu 2026 um 60% sem er langt undir lögbundnu hámarki, sem er 150%.  Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldaviðmiðið lækki jafnt og þétt á tímabilinu.  Áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi skuldaniðurgreiðslu og styrkingu fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2026 2029 fyrri umræða í bæjarstjórn 05.11.25