Bæjarstjóri afhenti leikskólanum fánann fyrir hönd Landverndar, sem er samstarfsaðili Foundation for Environmental Education (FEE) hér á landi.
Hrósaði bæjarstjóri leikskólabörnum og starfsliði Lyngholts fyrir hreint frábæran árangur. Benti hann m.a. á að mikil verðmæti felist í þeirri þekkingu sem grænfánastarfið miðlar, ekki aðeins með aukinni virðingu fyrir umhverfi, endurvinnslu og endurnýtingu, heldur einnig með þeirri samvinnu sem umhverfisvernd byggir á. Í umhverfismálum gildir aðeins eitt og það er: Enginn getur allt, allir geta eitthvað.
Bæði bæjarstjóri og umhverfisstjóri lögðu til hjálparhönd þegar nemendur flögguðu grænfánanum og var að því loknu hrópað ferfalt húrra.
Þá sungu börnin valin lög í tilefni að því að dagurinn í dag er tileinkaður íslenskri tungu og fóru með ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, en Dagur íslenskrar tungu er á fæðingardegi hans.
Boðið upp á ávexti og kleinur og gæddu bæði nemendur og gestir sér á góðgætinu. Fjölmargir komu í heimsókn á Lyngholt til að samgleðjast, þar á meðal Þóroddur Helgason, fræðslustjóri.