Íbúafundurinn verður haldinn kl. 20 í Egilsbúð í Neskaupstað þann 17. mars n.k. þar sem kynntar verða niðurstöður mats á umhverfisáhrifum vegna ofanflóðavarna á Norðfirði neðan Nesgils og Bakkagils annars vegar og hins vegar neðan Urðarbotns og Sniðgils.
Á fundinum mun fulltrúi Ofanflóðasjóðs kynna framkvæmdina og sérfræðingar verkfræðistofunnar EFLU kynna niðurstöður umhverfismatsins og svara spurningum.
EFLA verkfræðistofa hefur, fyrir hönd Fjarðabyggðar, lagt fram tvær frummatsskýrslur vegna ofanflóðavarna á Norðfirði, annars vegar neðan Nesgils og Bakkagils, og hins vegar neðan Urðarbotns og Sniðgils. Um er að ræða tvenn varnarvirki sem koma til viðbótar við þau sem fyrir eru á Norðfirði, undir Tröllagiljum og undir Drangagili.
Fundurinn er hluti af kynningarferli fyrir niðurstöður mats á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrslurnar munu liggja frammi til kynningar frá 15. mars til 26. apríl 2015 hjá Skipulagsstofnun og á heimasíðum EFLU verkfræðistofu og Fjarðabyggðar.
Allir hafa rétt til að kynna sér skýrslurnar og leggja fram athugasemdir, og skulu þær vera skriflegar og berast eigi síðar en 26. apríl 2016 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 105 Reykjavík.