Fara í efni
02.08.2024 Fréttir

Innsævi, menningar- og listahátíð Fjarðabyggðar

Deildu

Aðsókn á viðburði var með besta móti og það er gaman að segja frá því að greina má talsverða aukningu á fjölda gesta en í sumar mættu í kringum 1300 manns á Innsævi. Þátttakendur sem stóðu að baki Innsævis voru 122 og áttu viðburðirnir 32 sér stað í 21 viðburðarrýmum víðs vegar um Fjarðabyggð.

Í ár var lögð sérstök áhersla á að fá listafólk úr Fjarðabyggð og með austfirskar tengingar "heim" til að koma fram, taka þátt og sýna list sína. Má í þessu samhengi nefna hljómsveitirnar Dundur og CHÖGMA, listakonurnar Sögu Unn, Sædísi og Svanlaugu Aðalsteinsdóttur, plötusnúðana Nonna Clausen og Tonytjokko, ljósmyndarann og skáldið Dagbjörtu Elvu Sigurðardóttur ásamt hljómsveitinni Völusteinar, gítarleikarann Svan Vilbergsson og Magma, ljóðskáldin Jón Knút Ámundsson og Önnu Karen Marinósdóttur, hljóðinnsetninguna ÓM með þeim Hauki og Kötlu, og listamennina Marc Alexander og Pál Ivan frá Eiðum. Þessi stefna setti mikinn og jákvæðan svip á hátíðina og ekki annað að sjá en að þetta hafi fallið í kramið og haft mjög góð áhrif á aðsókn.

Sýningin Pressuð flóra Íslands sem pólski listamaðurinn Maciej Łobczowski á veg og vanda af ásamt þeim Marc Alexander og Rafal Jan Koczanowicz opnaði í Templaranum á Fáskrúðsfirði og var þar með endapunkturinn á hátíðinni.

Takk öll þið sem lögðuð leið ykkar á tónleika og sýningar hjá okkur í sumar og áttu þátt í því að gera þetta að ógleymanlegri hátíð. Takk öll þið sem lögðu hönd ykkar á plóginn, fjölluðu um það sem hér var að gerast og hjálpuðu okkur með viðburðahald og annað tilfallandi, og að lokum hjartans þakkir til þessa stóra hóps listafólks sem tók þátt í Innsævi og kom víða að til að lyfta andanum og gefa af sér á svo undursamlegan, óeigingjarnan og mikilvægan hátt!