Í síðustu viku voru jólaljósin á jólatrjánum í Fjarðabyggð tendruð og jólastemningin formlega mætt í bæinn. Mjóifjörður reið á vaðið ásamt Neskaupstað, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði á fyrsta sunnudegi í aðventu. Því næst var kveikt á jólaljósunum á Eskifirði og Reyðarfirði á mánudeginum og að lokum var tendrað á jólatrénu í Breiðdalsvík á miðvikudeginum.

Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, flutti hátíðlegt ávarp á Norðfirði og kveikti á ljósunum að viðstöddu fjölmenni. Í ræðu sinni minnti hún á gildi samstöðu, náungakærleika og þess að gefa sér tíma fyrir fjölskyldu og vini yfir hátíðirnar.
Veðrið setti vissulega sitt strik í reikninginn; kalt var í veðri, til skiptis snjókoma og rigning, en íbúar létu það ekki á sig fá. Stemningin var hlý og notaleg þar sem fólk kom saman, spjallaði, hlýddi á jólatónlist og naut samverunnar. Jólasveinar komu akandi með slökkviliði Fjarðabyggðar og með aðstoð björgunarsveita og buðu börnum mandarínur og piparkökur við mikinn fögnuð.

Viðburðirnir eru orðnir hluti af fallegri aðventuhefð í Fjarðabyggð þar sem skólahópar, félagasamtök og fjölskyldur alls staðar að af sveitarfélaginu taka þátt.
