Lundur, ný skammtímadvöl fyrir börn með langtíma þjónustuþarfir, hefur hafið starfsemi í Skála að Búðareyri 10 á Reyðarfirði. Þar er boðið upp á öruggt, hlýlegt og uppbyggilegt umhverfi þar sem börn fá tækifæri til að hvíla sig, njóta, leika og fá stuðning við athafnir daglegs lífs – um leið og fjölskyldum þeirra er létt undir með umönnun.
Opnað með notalegu opnu húsi
Þann 25. nóvember 2025 var haldið opið hús í Lundi þar sem fjölskyldur og aðrir bæjarbúar fengu tækifæri til að kynna sér starfsemina, hitta starfsfólkið og skoða aðstöðuna.
Í húsinu skapaðist afslöppuð og notaleg stemning; gestir skreyttu piparkökur, boðið var upp á heitt kakó og áttu ánægjulega stund saman í hlýlegu andrúmslofti.

Á opna húsinu var einnig vígt nýtt skynörvunarherbergi og fengu gestir að prófa rýmið og upplifa þá róandi og fjölbreyttu möguleika sem það býður upp á.
Veglegt framlag Kvenfélagsins
Kvenfélagið á Reyðarfirði hélt happdrætti í tengslum við opna húsið þar sem allur ágóði rann til Skála. Framlagið var nýtt í skynörvunarrýmið sem er mikilvægur hluti af aðstöðunni í Lundi.
Starfsfólk Lundar er afar þakklátt fyrir þetta rausnarlega framlag sem hefur verulega þýðingu fyrir þjónustuna. Í skynörvunarherberginu fá börn tækifæri til að slaka á, örva skynjun sína á öruggan hátt og vinna með tilfinningar og ró í umhverfi sem er sérhannað með þeirra þarfir í huga.
Framlag Kvenfélagsins styrkir ekki aðeins gæði þjónustunnar heldur endurspeglar líka þann samhug og stuðning sem samfélagið í Fjarðabyggð sýnir fjölskyldum og börnum sem þurfa á slíkum úrræðum að halda.

Lundur – þeirra dvöl og þeirra staður
Lundur starfar í Skála að Búðareyri 10 á Reyðarfirði. Dvalartími barna getur verið breytilegur og lagaður að þörfum hvers og eins, þannig að þjónustan geti mætt mismunandi aðstæðum og álagi hjá fjölskyldum.
Markmið þjónustunnar er að styðja við börn með langtíma þjónustuþarfir og fjölskyldur þeirra með því að bjóða upp á öruggt og uppbyggilegt rými.
Í Lundi er lögð áhersla á:
- hvíld og afþreyingu fyrir börnin
- aðstoð við athafnir daglegs lífs
- að létta álagi af fjölskyldum
- að börn fái tilbreytingu, nýja upplifun og tækifæri til að njóta sín í öðru umhverfi en heima
Unnið er út frá einstaklingsmiðaðri þjónustu sem tekur mið af þörfum, getu og áhuga hvers barns. Áhersla er lögð á stuðning, leik, góða daglega rútínu og að börn upplifi hlýju, vellíðan, öryggi og virðingu.
Lundur er þannig hugsaður sem öruggur og kærkominn dvalarstaður þar sem börnin eru í forgrunni – þeirra dvöl og þeirra staður – með sterkan stuðning samfélagsins í kringum þau.
