Mælaborðið var formlega opnað á dögunum af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hægt er að nálgast mælaborðið á vef Matís með því að smella hér.
Mælaborðið birtir lífmassa sjókvíaeldis, sláturtölur, afföll og fóðurnotkun á landsvísu frá 1. janúar 2020. Hægt er að skoða lífmassa í sjókvíaeldi, umfang rekstrarleyfa, áhættumat, burðarþol, afföll og fjölda laxalúsa eftir landshlutum og fjörðum. Ársframleiðsla eftir fisktegundum og landshluta er birt aftur til ársins 2004 fyrir land- og sjókvíaeldi.
Kortasjáin sýnir staðsetningar eldissvæða um landið og hvaða svæði eru í notkun eða í umsókn, ásamt þróun lífmassa, fjölda laxalúsa og afföll (%). Einnig er hægt að sjá uppruna og tegund þeirra fiska sem aldir eru á hverju svæði.
Eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar vegna eftirlits með rekstri og búnaði fiskeldisstöðva eru birtar í mælaborðinu, ásamt rekstrarleyfum. Þar má einnig nálgast upplýsingar um stofnun fiskeldisstöðvar, lista yfir rekstraraðila í fiskeldi, ársskýrslur fisksjúkdóma og fundargerðir fisksjúkdómanefndar.